145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

búvörusamningur.

[16:02]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að vekja máls á þessu máli og hefja umræður. Ég vil líka óska ráðherra til hamingju með að klára þennan samning. Við skulum hafa í huga að þetta er samningur milli í rauninni margra aðila. Það er ekki eins og þetta sé frumvarp sem ráðherra semur í sínu ráðuneyti, þetta er niðurstaða eftir langt og mikið þref við marga aðila.

Við getum talað um að þetta sé há upphæð en við getum líka sagt í sama orði að þetta sé langur tími. Það gefur augaleið að eftir því sem samningstíminn er lengri verður upphæðin hærri, ef við viljum reyna að blása þetta upp.

Gefur það ekki augaleið að við erum að niðurgreiða matvæli? Við erum að niðurgreiða landbúnaðarvörur, við erum að niðurgreiða mjólk og íslenskt kjöt, íslenskt lífrænt ræktað kjöt, og hvað er mikilvægara en stuðningur við barnafjölskyldur? Eru það ekki akkúrat barnafjölskyldur sem njóta helst góðs af því að við niðurgreiðum mjólk og kjötvörur?

Við getum farið í einstaka liði og fundið margt. Fulltrúa Bjartrar framtíðar, Brynhildi Pétursdóttur, fannst vanta upphæðir í einstaka liði. Við getum alveg brotið það niður. En markmiðin eru skýr í þessum samningi.

Mig langar að vekja sérstaka athygli á bókun um byggðamál og lesa upp úr henni, með leyfi forseta:

„Samningsaðilar eru sammála um að ráðast í starf sem miðar að því að treysta innviði og búsetu í sveitum. Í því felist meðal annars að finna skilgreindar leiðir sem stuðla að aukinni sjálfbærni sveitanna …“ (Forseti hringir.)

Ég næ ekki að klára það núna, en þetta er í rammasamningnum og hvet ég fólk til að lesa þetta því að þetta er í senn (Forseti hringir.) niðurgreiðsla til barnafjölskyldna og til að efla og styrkja byggðir í sveitum.