145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

fríverslunarsamningur við Japan.

22. mál
[16:50]
Horfa

Hanna Birna Kristjánsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég hef svo sem ekki miklu við það að bæta, alla vega ekki efnislega, sem fram kom í ræðu hv. flutningsmanns tillögunnar og síðan hv. framsögumanns nefndar. Ég vil hins vegar árétta þá afstöðu mína og nefndarinnar allrar að málið er mikilvægt. Við teljum mikilvægt að það verði afgreitt fljótt og örugglega úr þingsal. Ég held að það segi mikið um hversu mikilvægt málið er talið hversu góð samstaða hefur náðst um það á vettvangi þingsins og nefndarinnar. Eins og fram kom í máli hv. framsögumanns taldi nefndin ekki ástæðu til að fara aftur yfir tillöguna, heldur leggur hún álitið fram óbreytt frá því að málið var síðast tekið fyrir.

Ég vil þakka og hrósa hv. flutningsmanni tillögunnar fyrir málafylgjuna og tek undir allt sem hann sagði um mikilvægi og nauðsyn þess að afgreiða þetta mál og nýta það tækifæri sem við höfum allt um kring er varðar þetta hagsmunamál fyrir Ísland. Það er synd að Íslandi hafi ekki þegar fríverslunarsamning við Japan, en eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom inn á hér áðan eru ákveðin tækifæri og lag núna til að nýta sér stöðuna, bæði stjórnmálastöðuna í Japan, viðskiptastöðuna sem þar er, alla þá markaði sem geta opnast í auknum mæli fyrir Ísland. Í ár eru 60 ár liðin frá því að við tókum upp stjórnmálasamband við Japan.

Ég held því að allt í þessu máli gefi okkur góðan vind í bakið til þess að nýta það, eins og nefnt var í ræðunni hér á undan. Ég hvet Alþingi fyrir hönd hv. utanríkismálanefndar til þess að afgreiða málið fljótt og örugglega. Ég hvet ríkisstjórnina til að taka það alvarlega og vinna vel og örugglega að því og þakka þingheimi fyrir skilninginn og þann mikla metnað sem menn hafa sýnt í þágu þess að klára málið.