145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

framlög í Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands.

212. mál
[15:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra um stöðu mála hvað varðar Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands. Raunar er þetta fyrirspurn frá því í október síðastliðnum þannig að það kann nú að vera að ýmislegt hafi breyst frá því að hún var lögð fram, en eins og kunnugt er var samþykkt á Alþingi að í tilefni af 100 ára afmæli Háskóla Íslands skyldi stofnaður sérstakur aldarafmælissjóður. Stofnframlag var 150 millj. kr. og síðan var settur á laggirnar sérstakur starfshópur með fulltrúum frá Alþingi, forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Háskóla Íslands sem gera átti tillögu um framlög í sjóðinn á árunum 2012–2020.

Hugsunin á bak við það sem gerð var grein fyrir í ræðum hér var að framlögin gætu stutt við Háskóla Íslands um að fylgja eftir þeim markmiðum sem hann hefur sett sér í stefnumótun sinni, og enn fremur að stefnt yrði að því að framlög til háskólanáms hér á landi mundu færast nær því sem við þekkjum í þeim löndum sem við berum okkur saman við, þ.e. annars vegar OECD-meðaltalinu svokallaða og hins vegar því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Meðalframlög á háskólanema þar eru umtalsvert hærri en meðaltal OECD og síðan hefur Ísland verið fyrir neðan OECD. Það var raunar samþykkt í stefnu Vísinda- og tækniráðs, sem hæstv. forsætisráðherra veitir forstöðu, að stefna beri að þessum framlögum.

Settur var starfshópur sem gera átti tillögur að framlögum á árunum 2016–2020. Nú liggur fyrir að hér voru samþykkt fjárlög í desember með óbreyttu framlagi í Aldarafmælissjóðinn frá fyrra ári. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hverju það sæti. Hefur starfshópurinn fundað sem settur var á laggirnar um málið og hefur væntanlega verið starfandi, og hefur hann sett niður stefnu fyrir árin 2016–2020? Er hæstv. forsætisráðherra bjartsýnn á að við munum ná þeim markmiðum að fjárframlög á háskólanema hér á landi, sem ég tel að við hljótum að vera sammála um, nái OECD-meðaltalinu? Við stefndum að því að þau næðu því árið 2016 en það hefur ekki náðst, og þau áttu að ná svokölluðu Norðurlandameðaltali á hvern nemanda árið 2020.

Ég hef ekki tíma til að fara yfir það hversu miklu skiptir að fjárfesta í háskólum og rannsóknum. Ég tel að Aldarafmælissjóðurinn hafi verið gott framlag enda var góð samstaða um það hér á þingi til þess að styðja við Háskóla Íslands og vonandi ætti það, það er alla vega mín skoðun, að skila sér líka til annarra háskóla hér á landi, að þeir fylgi í kjölfarið hvað varðar fjárframlög. En í stuttu máli er spurningin: Hvar standa samningar? (Forseti hringir.) Liggur fyrir áætlun um fjárframlög í þennan sjóð til 2020? Er hæstv. forsætisráðherra bjartsýnn á þessi markmið?