145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

markmið verkefnisins Ísland 2020 -- sókn fyrir atvinnulíf og samfélag.

350. mál
[16:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er ekki að spyrja að því hjá hæstv. forsætisráðherra, ævinlega er allt betra hjá honum. En ég held að það sé nokkuð útbreidd skoðun, eins og hv. síðasti ræðumaður nefndi, og það fer ekki leynt hjá þeim sem rætt hafa við sveitarstjórnarfólk og heimsótt hafa byggðirnar undanfarin missiri, að megn óánægja er með þá misráðnu ákvörðun þessarar ríkisstjórnar að slá af það sem sett var í góðan farveg með virkri þátttöku heimamanna í gegnum stefnumótunarvinnu og aukið sjálfstæði til að fara með og ráðstafa fjármunum til atvinnuuppbyggingar og nýsköpunar í formi sóknaráætlananna og 2020-áætlunarinnar. Og auðvitað er mikil óánægja með að fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar hafi verið slegin af, aðallega af því að fyrri ríkisstjórn setti hana af stað, undir því yfirskyni að hún væri ekki fullfjármögnuð. Svo kemur í ljós að það er miklu meira en það sem hún gekk út á komið í arðgreiðslur frá bönkunum allan tímann. Ríkisstjórnin hefur þarna staðið sig illa í byggðamálum. Hún stendur sig illa í að hefja uppbyggingu á innviðum samfélagsins. Það eru ekki innstæður fyrir tali (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra þegar kemur að viðhorfum manna til þess hvernig ríkisstjórn hans hefur staðið sig í byggðamálum. Hún fær (Forseti hringir.) falleinkunn úti um allt land. Það er bara þannig.