145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[15:22]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög stórt og mikilvægt mál sem við fáum inn í þingið. Mér þykir miður að menn hafi ekki verið róttækari og tek heils hugar undir nefndarálit minni hlutans sem mér finnst mjög gott. Ég mundi næstum því vilja að við frestuðum þessu máli og gerðum það almennilega, til dæmis varðandi innheimtu sekta og sakarkostnaðar, eins og hv. framsögumaður kom inn á. Þar velta menn fyrir sér hvernig þeir eigi að gera þetta.

Ég er hér með skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem er sú þriðja á um sjö árum, þar sem í rauninni er undirstrikað hvað okkur gengur illa að innheimta þennan kostnað. Við heimilum ekki launaafdrátt, ólíkt hinum Norðurlöndunum utan Finnlands, ég veit ekki hvernig það er þar. Hv. framsögumaður segir að ráðuneytið hafi skoðað það og svo eigi að skoða þetta eitthvað nánar. Við heimilum til dæmis launaafdrátt þegar meðlagsgreiðslur eru annars vegar. Þar erum við oft að tala um hóp af fólki sem stendur mjög illa, einstæða feður og meðlagsgreiðendur. Það vantar nú ekkert upp á að þá förum við í launin. En þegar það eru skattalagabrot og sektir eru menn eitthvað að væflast með þetta og virðast ekki geta komist að neinni niðurstöðu.

Annað sem Ríkisendurskoðun bendir á er að yfirleitt er samfélagsþjónusta fullnusta refsinga í slíkum brotum. Ég held að aldrei hafi nokkur manneskja setið inni fyrir skattaskuldir óháð upphæðinni. Ég varð fyrir vonbrigðum með niðurstöðu meiri hlutans í þessu máli.

Ég spyr hv. framsögumann: Hvað á að skoða og hvenær kemur einhver niðurstaða í þetta mál? Í rauninni erum við bara með óbreytt ástand núna.