145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:07]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að mér takist að svara þessari spurningu með fullnægjandi hætti. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður kemur inn á að til þess að fara í heildarendurskoðun þar sem betrun er inntak þarf miklu meira starf en við höfum getað innt af hendi hér í þetta sinn, þótt ég sé þess fullviss eins og hv. þingmaður að allir séu sammála um að það væri besta leiðin, að því gefnu að fjármagn leyfði.

Hvað varðar samfélagsþjónustu ungra manna þá er það óumdeilt, eftir því sem ég fæ best séð, að samfélagsþjónusta er mjög gott og mjög uppbyggilegt úrræði, en hins vegar er það þannig að fyrst dómstólar geta ekki dæmt í það úrræði þá hafa þeir tilhneigingu til að dæma menn í skilorðsbundið fangelsi sem margir upplifa þannig að þeir hafi sloppið með skrekkinn, þeir upplifa það ekki sem refsingu því það hefur ekki varnaráhrif og ekki uppbyggileg áhrif heldur. Brotið er samt ekki það mikið að það krefjist þess að manneskjan sé lokuð inni eða það kalli á frelsissviptingu, alla vega ekki meiri en samfélagsþjónustan, sem er auðvitað ákveðin tegund af frelsissviptingu. Þannig að ég hef mikla trú á því úrræði.

Hvað varðar sáttamiðlun þá þekki ég hreinlega ekki til hlítar rannsóknir um það hversu gagnlegt það úrræði hefur reynst. Mér þykir það áhugavert úrræði og mér þykir sjálfsagt að dómstólar geti kveðið á um eitthvað slíkt, í það minnsta reynt það. Ég veit ekki hvort það væru lögfræðileg vandamál í kringum það. Þá vil ég benda á að ég hef lagt fram fyrirspurn til innanríkisráðherra um sáttamiðlun í sakamálum og bíð eftir svari og hlakka til að fá það, þá get ég kannski svarað spurningum hv. þingmanns betur en þetta.