145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

útlendingar.

560. mál
[17:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við heldur viðkvæmt mál. Eins og sumir hafa kannski tekið eftir er ég eini nefndarmaður hv. allsherjar- og menntamálanefndar sem er ekki með á málinu. Það er ástæða fyrir því. Hún er sú að ég hef áhyggjur af því að þetta sé ekki rétt leið.

Fyrst vil ég nefna að í dag er krísa í málefnum hælisleitenda og flóttamanna, ekki síst í Evrópu. Það er ekki bara umdeilt hvort eigi yfirhöfuð að stíga þau skref að huga að réttindum hælisleitenda og flóttamanna heldur er einnig umdeilt hvernig beri að framkvæma það. Ég tel þetta mál vera dæmi um það. Ég trúi því staðfastlega að öllum sem leggja frumvarpið fram gangi gott eitt til, að þessir ágætu hv. þingmenn séu að reyna að huga sem best að réttindum og hagsmunum hælisleitenda og flóttamanna. Hins vegar hef ég áhyggjur af áhrifum frumvarpsins og langar að tíunda þær af þeim sökum að veruleikinn á gólfinu, eins og maður segir, er oft mjög frábrugðinn því sem við sjáum hér á hinu háa Alþingi og í stjórnsýslunni, svo sem innanríkisráðuneytinu eða Útlendingastofnun. Það er undirliggjandi ótti í þessum málaflokki. Það er óttinn við flóðið, flóðið af fólki sem hingað mun flæða í milljónavís og ganga af einhverju dauðu hér á Íslandi, ef ekki efnahagnum, þá menningunni eða tungunni eða hverju sem er.

Mig langar að benda á að það eru 500 milljón manns í Evrópusambandinu og við erum í EES. Þessar 500 milljónir mega koma hingað og búa hér ef þeim sýnist. Þeir þurfa að skrá sig, en þurfa í rauninni ekki neitt sérstakt leyfi til þess. Þeir þurfa einungis að láta vita að þeir séu hér og fara í gegnum einhverja pappírsvinnu en þeir mega vera hér. Allir Grikkir, allir sem eru með grískan ríkisborgararétt, mega flytja hingað ef þeim sýnist, ef þeim dettur það í hug mega þeir það. 500 milljón manns. Yfir 7% mannkyns, yfir 7% dýrategundarinnar sem við tilheyrum mega flytja til Íslands í dag.

Hvar er flóðið? Það er ekki hérna. Ástæðan er sú að þetta ágæta fólk, þessar 500 milljónir, mega flytja í önnur ríki þessa 500 milljón manna Evrópusambands. Þegar EES var samþykkt áttu að flykkjast hingað Ítalir í milljónatali. Hvar eru allir Ítalirnir? Þeir eru ekki hérna. Jú, þeir mega flytja hingað ef þeir vilja en þeir hafa ekki kosið að koma hingað. Auðvitað eru misjafnar ástæður fyrir því hvers vegna fólk vill búa þar sem það býr eða flytja þangað sem það vill flytja.

Núna á Evrópa við að stríða mjög alvarlegan vanda í sambandi við flóttamenn og hælisleitendur sem er fjöldinn. En ástæða vandans er fyrst og fremst sú að einungis einstaka lönd hafa tekið þessu fólki opnum örmum. Það þýðir að allt álagið fer þangað. Fólkið fer til Þýskalands og Svíþjóðar. Í Þýskalandi eru um 80 milljón manns, í Svíþjóð eru um 9 milljón manns. Ef allt þetta fólk gæti farið óhindrað um 500 milljón manna markaðssvæði trúi ég því að þessi krísa yrði leyst á örfáum árum. Auðvitað yrðu einhverjar samfélagsbreytingar, auðvitað yrðu einhverjar menningarbreytingar. Eðlilega og sem betur fer. Þær eru jákvæðar til lengri tíma eins og saga fjölmenningarsamfélaga sýnir hvað best að mínu mati, svo sem Bandaríkjanna og Kanada og fleiri ríkja.

Þegar kemur að þessum málaflokki hér þá höfum við alltaf áhyggjur af þessu flóði af fólki sem muni koma hingað. Auðvitað getur það gerst ef við tökum rangar ákvarðanir. Ég vil meina að rangar ákvarðanir séu þær að reisa fleiri veggi og meiri hindranir í þessum málaflokki. Þvert á móti eigum við að hvetja samstarfslönd okkar og vinaþjóðir — og óvinaþjóðir ef út í það er farið, ef við eigum nokkrar slíkar — til að taka niður girðingar og hindranir. Það er mín afstaða. Auðvitað þarf að standa rétt að málum, það skiptir gríðarlegu máli.

Eins og ég hef nefnt áður trúi ég því staðfastlega að öllum gangi gott eitt til sem leggja frumvarpið fram en mig langar til að tíunda áhyggjur sem ég hef í sambandi við það. Ein er sú að ég hef verulegar áhyggjur af því að formaður hv. kærunefndar hafi vald til að úrskurða í málum einn og sér, hvað þá að varaformanni sé það einnig heimilt, samkvæmt ákveðnum forsendum sem frumvarpið gefur, svo sem eins og að ríkið sé á öruggum lista, mál sé bersýnilega tilhæfulaust eða hvaðeina. Ég trúi því ekki að þessi verkfæri sem við höfum, þ.e. hugtakið „bersýnilega tilhæfulaus umsókn“ og „listi yfir örugg ríki“ séu nógu góð tól. Ég held ekki að þau virki eins og er og þess vegna líður mér illa með að færa þetta mikla vald í hendur svo fárra. Miklu frekar mundi ég vilja gera meira til að gera kærunefndinni kleift að vinna að öllum málum hratt og örugglega með einfaldlega fleira fólki og meiri tíma. Það þýðir að sjálfsögðu meira fjármagn. Það er ekkert hægt að gera af viti í þessum málaflokki að mínu mati án aukins fjármagns. Þannig að ég hef miklar áhyggjur af því.

Sömuleiðis tel ég það gríðarlega afturför að taka burt rétt umsækjenda til að mæta á fund nefndarinnar. Ég átta mig fullkomlega á því að það taki tíma en ég tel það vera með mikilvægari réttindum þessara umsækjenda, að geta farið og hitt þetta fólk og talað við það og lýst sínu ástandi og aðstæðum sínum milliliðalaust. Það hryggir mig að þennan rétt eigi að taka burt þótt ég skilji að auðvitað gangi fólki vel til sem leggur það til.

Ég er í grundvallaratriðum á móti lista yfir örugg ríki. Ég tel hann einungis þjóna því hlutverki að taka mál ekki til nógu mikillar umfjöllunar. Ég held að ein afleiðingin af þessum lista yfir örugg ríki sé að fólkið sem tekur þessar ákvarðanir stytti sér leið. Ég sé ekki hvað þessi listi á að gera annað og þess vegna er ég í grundvallaratriðum á móti honum. Ég tel breytinguna sem er lögð til í frumvarpinu ekki til bóta. Ég tel hana festa hugmyndina í sessi. Það er þvert á þá stefnu sem ég vil fara í.

Þá hef ég enn fremur verulegar áhyggjur af því að sett sé í lög að réttaráhrifum verði ekki frestað. Ég tel einsýnt að það eigi alltaf að vera mögulegt að fresta réttaráhrifum. Aftur: Ég skil rökstuðninginn og ég ber virðingu fyrir markmiðinu sem fólk er að reyna að ná, þ.e. að bæta réttarstöðu og hagsmuni þessara umsækjenda. Ég tel bara ekki að þetta sé leiðin til þess. Ég tel að það eigi alltaf að vera hægt að fresta réttaráhrifum.

Ég er með öðrum orðum einfaldlega ekki sammála því sem kemur fram í upphafi greinargerðar, að frumvarpið leiði af sér sanngjarnari og skilvirkari málsmeðferð, þótt ég skilji að það sé tilgangurinn og beri virðingu fyrir því að það sé tilgangurinn. Ég ber ómælda virðingu fyrir því. Auðvitað gengur flutningsmönnum gott eitt til en ég er bara ekki sammála þeim um að þetta sé rétt leið.

Nú fær frumvarpið umfjöllun í hv. allsherjar- og menntamálanefnd þar sem við getum tekið þessa umræðu með ytri aðilum og ég hlakka mikið til að gera það. En samt ekki, því að ég býst við að sú umræða verði mjög þung. Málaflokkurinn er mjög þungur og um er að ræða ofboðslega mikilvæga hagsmuni og réttindi ofboðslega margs fólks.

Að svo stöddu ætla ég ekki að lengja mál mitt um þetta frumvarp en vil bara ítreka að ég ber mikla virðingu fyrir því að fólk vilji gera vel. En það er ekki nóg að vilja vel. Við þurfum líka að vita nákvæmlega hvað við erum að gera. Ég tel að það sé ekki tilfellið þegar kemur að þessu frumvarpi.