145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

breytingar á fæðingarorlofi.

[15:49]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það var mikið forgangsmál hjá þessari ríkisstjórn að hætta að reka ríkissjóð með halla, hætta að safna skuldum. Fátt bitnar jafn illa á framtíðarkynslóðum og skuldasöfnun. Þess vegna einsettum við okkur að reka ríkið með afgangi eins og við höfum gert frá upphafi. Af þeim sökum þurfti að spara á ýmsum stöðum.

Hækkun tryggingagjaldsins á sínum tíma kom hins vegar fyrst og fremst til vegna þess að skyndilega jókst mjög atvinnuleysi á Íslandi. Við höfum lækkað tryggingagjaldið í skrefum en það er rétt sem hv. þingmaður nefnir, ekki fer allt tryggingagjaldið í að standa straum af rekstri Atvinnuleysistryggingasjóðs. Það er hluti af því svigrúmi sem menn hafa úr að spila og meðan ekki er búið að lækka tryggingagjaldið meira hljóta menn að taka það með í þá vinnu sem fram undan er við forgangsröðunina. Ég ítreka að vitaskuld gera framsóknarmenn sér grein fyrir mikilvægi þess að hafa öflugt fæðingarorlofskerfi.