145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

skipun nýrrar heimsminjanefndar.

478. mál
[17:17]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þingmanni, fyrir umræðuna. Ég vil í upphafi minna á að heimsminjanefnd Íslands er ekki lögboðin nefnd og starfar þar af leiðandi ekki samkvæmt lögum eða reglugerð. Hún hét upphaflega samráðshópur um samning UNESCO frá árinu 1972 um menningar- og náttúruarfleifð heimsins, og hefur það hlutverk fyrst og fremst að vera vettvangur samráðs um heimsminjar hér á landi og vera mennta- og menningarmálaráðuneytinu til ráðgjafar við framkvæmd heimsminjasamnings UNESCO.

Nefndin varð til við samkomulag milli menntamálaráðuneytisins og umhverfisráðuneytisins þegar samningurinn var staðfestur árið 1995 um að hafa náið samráð um eftirfylgni við heimsminjasamninginn. Upphaflega heitinu var breytt á sínum tíma í heimsminjanefnd Íslands af hagkvæmnisástæðum því að nafnið var mjög óþjált, sérstaklega í erlendum samskiptum. Hlutverk nefndarinnar breyttist aftur á móti ekki neitt.

Árið 2013 var ákveðið að fjölga þeim aðilum sem ættu fulltrúa í nefndinni því að þörf væri á auknu samráði við sveitarfélög í framtíðinni í tengslum við vinnu við samninginn og nýjar tilnefningar. Við höfum kallað eftir tilnefningum, ég get upplýst hv. þingmann um það, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, þ.e. að fá tilnefningu frá þeim inn í vinnuhópinn. Eins munu fulltrúar heimsminjastaðanna tveggja eiga áfram fast sæti í nefndinni auk fulltrúa íslensku UNESCO-nefndarinnar.

Ég tel að ekki þurfi að hafa neinar áhyggjur af þessu máli. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur alla tíð annast eftirfylgni við heimsminjasamninginn í nánu samráði við umhverfis- og auðlindaráðuneytið, hvort sem heimsminjanefnd hefur verið starfandi eða ekki. Allt það sem framkvæmt hefur verið af ákvörðunum heimsminjanefndarinnar hefur verið unnið af þeim starfsmönnum ráðuneytanna sem bera ábyrgð á samningnum og eru tengiliðir þeirra við heimsminjaskrifstofu UNESCO, svokallað „focal points“, þannig að starfið fer í gegnum starfsmenn ráðuneytanna.

Ég vil nota tækifærið til að vekja athygli á því sem var í fréttum um daginn og hv. þingmaður nefndi aðeins í máli sínu, sem eru hinar óefnislegu heimsminjar. Ég minni á að nú fyrir skemmstu tókum við á lista, sem kallaður er Minni heimsins af hálfu okkar Íslendinga, meðal annars Passíusálma, eiginhandrit Hallgríms Péturssonar, fjártal frá 1703 og svo framvegis. Það voru einar fjórar tilnefningar sem fóru á þá skrá og undirstrikar það mikilvægi þessara mála.

En ég vil ítreka að þetta hefur verið unnið af hálfu ráðuneytisins og fylgst mjög vel með því af þeim starfsmönnum sem hafa áratugaþekkingu akkúrat á þessu sviði. Það hefur því verið mjög vel haldið utan um þessi mál.