145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

fjármálafyrirtæki.

589. mál
[18:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ákaflega málefnaleg svör. Það er líka mjög hollt fyrir þingið að fá að skyggnast inn í hugarheim hæstv. fjármálaráðherra, hvað hann er að hugsa varðandi það sem við, að minnsta kosti sumir þingmenn, teljum að séu váboðar. Út af fyrir sig skýrðu svör hæstv. ráðherra málið að ýmsu leyti.

Í fyrsta lagi þykja mér mikil tíðindi að hæstv. ráðherra lýsi því yfir að hann stefni að því að leggja fram frumvarp fyrir lok þessa þings þar sem er að finna aðlögun okkar gegnum tveggja stoða kerfið, eða speglun eins og hæstv. ráðherra kallaði það, að hinum nýju tilskipunum varðandi eftirlitsstofnanir. Það er mjög merkilegt. (Gripið fram í: Fyrir lok kjörtímabilsins.) — Fyrir lok kjörtímabilsins, gott og vel, jafnvel það væri hetjulegt af hæstv. ráðherra, ég skal ekkert segja um það hverjar lyktir verða hér, en ég hef efasemdir um þetta fyrir hönd stjórnarskrárinnar.

Að því er varðar vaxtamunarviðskiptin þá get ég alveg fallist á það hjá hæstv. ráðherra að þetta er draumurinn, þetta er framtíðin. Vonandi ná einhverjir fjármálaráðherrar framtíðarinnar að skapa aðstæður sem eru að þessu marki hagfelldar fyrir okkur. En þangað til þurfum við að vera við öllu búin. Hæstv. ráðherra bendir réttilega á að Seðlabankinn prentar peninga, prentar krónur og kaupir gjaldeyri og leggur hann til hliðar. En hvað getur hann gert það lengi?

Fyrsta spurning til hæstv. ráðherra: Getur hann það á næsta ári? Getur hann haldið því áfram?

Önnur spurning: Af hverju er þá einfaldlega ekki betra að koma þessu fyrir með þeim hætti að leyfa lífeyrissjóðunum að fara út með þá viðbót sem kemur í þeirra handraða á hverju ári? Ella er hættan sú að gengið fari upp og þetta er svo lítið hagkerfi að hér getur allt snúist á einni krónu. Við vitum alveg hvaða áhrif það hefði til dæmis strax á ferðaþjónustu. (Forseti hringir.)

Þetta eru þær tvær spurningar sem ég kemst að með núna. En þangað til þetta gerist þurfum við þá ekki að hafa þennan (Forseti hringir.) neyðarhemil sem hæstv. ráðherra nefndi hér, tvenns konar? Ég spyr hann: Hyggst hann leggja fram frumvarp um þetta tvennt?