145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

eignir í skattaskjólum.

[10:41]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og deili með honum þeirri skoðun að alþjóðleg samvinna sé besta leiðin til þess að tryggja gagnsæi að þessu leyti. Við verðum samt að hugsa hvaða hvatir hafi þá legið því að baki þegar þeir sem auðguðust á viðskiptum seldu fyrirtæki og högnuðust með stórfelldum hætti fyrir hrun, fluttu hagnaðinn úr landi og fluttu hann með ráðgjöf þeirra banka sem þá störfuðu hér í Karíbahafið eða í önnur skattaskjól. Hvað réð því? Hvaða hag töldu menn sig hafa af því að flytja peningana í þessi erlendu skattaskjól, jafnvel þó að hagnaðurinn hafi orðið til hér á landi?

Það er spurningin sem við þurfum að rekja okkur áfram eftir. Ég skil hæstv. ráðherra þannig að hann telji jafnvel að það sé hættulaust. Það væri kannski gott að heyra betri útfærslu hans á því. Ef það er hættulaust út frá skattasjónarmiðum og við getum algjörlega (Forseti hringir.) náð utan um slíkan hagnað sem verður til hér á landi í innlendri löggjöf, af hverju voru menn þá að flytja alla þessa peninga í Karíbahafið?