145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[18:08]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Mér finnst dálítið merkilegt og í raun og veru undarlegt, skulum við segja, að vera að ræða þetta mál í dag, þ.e. frumvarp til laga um breytingu á lögum um menningarminjar og fleiri lögum. Þarna er í raun verið að breyta sex lögum við þær aðstæður sem uppi eru í stjórnmálunum í dag og undanfarna daga. Hér ættum við auðvitað að vera að ræða önnur málefni forsætisráðherra sem honum virðast ekki vera eins hugleikin, alla vega vill hann ekki ræða þau opinberlega en ætti auðvitað gera það, þ.e. þau málefni sem snúa að honum með beinni hætti en þetta frumvarp hér.

Þó að frumvarpið sé nánast sniðið utan um hæstv. forsætisráðherra og áhugamál hans eru önnur mál miklu brýnni að mínu mati, sem við ættum að vera að eiga orðastað um við forsætisráðherra fyrst hann er hér í húsinu og á vappi í kringum þingsalinn. Það eru auðvitað þau málefni sem snerta hagsmuni hans tengda uppgjöri á þrotabúum gömlu bankanna og þau málefni sem snúa að því að hann hafi verið að varðveita fé, koma peningum undan höftum úr bankahruni í erlent skattaskjól og hafi haldið því leyndu fyrir þingi og þjóð og haldið því leyndu fyrir samstarfsflokki sínum og formanni samstarfsflokksins í ríkisstjórn. Það væri undir öllum venjulegum kringumstæðum tilefni þess að hér færi fram umræða um hvort hann ætti að vera eða fara. Í öllum öðrum samfélögum sem við viljum bera okkur saman við væri mál af þessari stærðargráðu, sem að mínu viti er eitt það stærsta pólitíska mál sem rekið hefur á fjörur okkar lengi á þessu landi, og er þó af mörgu að taka, tilefni þess að menn ættu alla vega að íhuga stöðu sína alvarlega, í það minnsta að upplýsa Alþingi um persónuleg mál sín og hvernig hagsmunir þeirra hafa verið samofnir við þeirra persónulegu störf og störf þeirra sem ráðherra. Það ættum við að vera að ræða í þessum ræðustól núna og í þessum þingsal fyrir fullum sal af þingmönnum sem ættu að hafa jákvæðan áhuga á þeim málatilbúnaði öllum saman. Hæstv. forsætisráðherra vill ekki ræða það.

Ég lít svo á að forseti þingsins hljóti að hafa gengið eftir því að hæstv. forsætisráðherra komi hér í þingsal og ræði þau mál, en hér er hann ekki og sést reyndar ekki mikið í þingsalnum undir þessu máli sínu sem hér er til umræðu og þar við situr, í stað þess að ræða þetta grafalvarlega mál sem hlýtur að hafa varanleg áhrif á stjórnmál á Íslandi, ekki bara í nútíð heldur til framtíðar. Þess vegna erum við að ræða hér lög um menningarminjar og breytingar á fleiri slíkum lögum. Og stjórnarþingmenn eru nú ekki margir hér í sal frekar en aðrir þingmenn. Við ræðum þetta mál síðdegis á föstudegi áður en Alþingi fer í tveggja vikna páskaleyfi og er útséð um að forseti Alþingis geti orðið við þeirri eðlilegu og sanngjörnu ósk þingmanna að ræða þá pólitísku stöðu sem upp er komin í landinu. Það þykir mér slæmt. Það þykir mér slæm stjórn á þinginu og það þykja mér slæm viðbrögð af hálfu forsætisráðherra að gera þá ekki tilraun til að hreinsa andrúmsloftið og gera ekki tilraun til að ræða þessi mál við þingið, heldur fara undan í flæmingi. Við ættum því að vera að ræða allt annað í dag en það sem hér er til umræðu.

Í stað þess stöndum við hér og ræðum áhugamál hæstv. forsætisráðherra, persónuleg áhugamál hans um minjamál, menningar og minjar, þ.e. við ræðum þau, hann ræðir þau ekki við okkur, eins og hæstv. forsætisráðherra ætti þó að gera, sem virðist vera að rjúfa öll sín tengsl við Alþingi bæði með framgöngu sinni sem forsætisráðherra og þegar hann gerir svo lítið að láta sjá sig hér í þinghúsinu þá ræðir hann ekki mál við þingmenn heldur gusar þeim út úr sér og yfirgefur síðan þingsalinn og tekur ekki þátt í umræðum um sín eigin áhugamál. Hagsmunamálið vill hann auðvitað ekki ræða.

Markmið þessa frumvarps er í fáum orðum sagt og reyndar bara í einni setningu, að færa yfirráð yfir menningarminjum í hendur forsætisráðherra, þess sem er í dag. Það er persónulegur áhugi sem ræður því að þetta frumvarp er lagt fram.

Með leyfi forseta, segir um megininntak frumvarpsins:

„Meginefni frumvarpsins er tillaga um að Þjóðminjasafn Íslands og Minjastofnun Íslands verði sameinuð í eina stofnun, Þjóðminjastofnun, þó þannig að Þjóðminjasafnið verði áfram til sem höfuðsafn og að um það gildi sérlög, enda þótt það falli undir hina nýju stofnun. Samhliða þessari tillögu er lagt til að verkefni sem lúta að friðlýsingu húsa og mannvirkja og afnám slíkrar friðlýsingar, samanber lög um menningarminjar færist til ráðherra, sem og verkefni Minjastofnunar Íslands samkvæmt lögum um verndarsvæði í byggð.“

Í stuttu máli færist allur málaflokkurinn til þess ráðherra sem gegnir embætti forsætisráðherra einmitt þessa dagana og að hámarki eitt ár í viðbót, ekki til ráðuneytisins sem slíks, heldur til hans persónulega, ekki vegna þess að hann búi yfir mikilli menntun í málaflokknum eða hafi yfirgripsmikla þekkingu á málaflokknum, í það minnsta hefur það hvergi komið fram, eða að færni hans liggi einhvers staðar í þessum málaflokkum, heldur er það eingöngu út af áhugamáli forsætisráðherra. Hann hefur áhuga á að friða hús, hann hefur áhuga á að stjórna og ráða í stað þess að fara í faglegt ferli með málaflokk af þessu tagi. Það er engin sérmenntun á bak við það af hálfu þessa einstaklings sem nú gegnir embætti forsætisráðherra og alla vega engin sjáanleg þekking sem hann býr yfir til að eiga það skilið að ráða yfir slíkum málaflokki, auk þess sem það er mjög ófaglegt af allra hálfu.

Að auka ráðherraræðið er algjörlega í andstöðu við þau skilaboð sem afleiðingar hrunsins sendu okkur inn í þingið og inn í samfélagið. Ef við værum á annað borð með frumvarp af þessu tagi í þinginu ættum við að fara algjörlega í hina áttina, þ.e. að fjarlægja ráðherravaldið frekar en færa það aftur í hendur ráðherra.

Það er ekki langt síðan forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins sagði að það væri sitt erindi á Alþingi að draga úr völdum þingmanna. Það gerði hann svo sannarlega. Hann dró úr völdum þingmanna. Hann tók þau öll sjálfur. Í nokkur ár var það þannig að það fór nánast einn maður með völdin í landinu og stjórnaði því með harðri hendi með frekar dapurlegum afleiðingum.

Í frumvarpinu er farið yfir meginmarkmið frumvarpsins og síðan um mat á áhrifum þess. Farið er í löngu máli yfir mat á áhrifum frumvarpsins. Það kemur ekkert fram hver metur þau áhrif. Ég geri ráð fyrir því miðað við hvernig textinn er skrifaður að það sé hæstv. forsætisráðherra sem hafi sett þetta niður á blað. Það kemur meðal annars fram að verði þetta frumvarp að lögum muni breytingin ekki með neinum hætti hafa bein áhrif á almenning í landinu. Þá liggur það fyrir. En þar segir að frumvarpið muni hafa áhrif á hagsmunaaðila á margvíslegan hátt. Með leyfi forseta:

„Hvað viðkemur breytingum á stofnanakerfinu eru þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu til þess fallnar að bæta þjónustu við hagsmunaaðila, enda markmið sameiningarinnar að skila faglegum ávinningi, skýrari verkaskiptingu og gera sameinaðri stofnun mögulegt að sinna betur hlutverki sínu og bregðast við breyttum og auknum kröfum til starfseminnar. Áhrif sameiningarinnar eru því jákvæð og ekki þörf á að líta til eða bregðast sérstaklega við neikvæðum eða íþyngjandi þáttum vegna sameiningar stofnananna hvað viðkemur hagsmunaaðilum.“

Ég endurtek: Áhrif sameiningarinnar eru því jákvæð og ekki þörf á að líta til eða bregðast við með neinum sérstökum hætti.

Hver gerir þetta mat á frumvarpinu? Hver er það sem leggur þetta mat á frumvarpið? Í það minnsta get ég fullyrt að engir umsagnaraðilar, engir þeir sem fara með þennan málaflokk í dag eru sammála því sem ég var að lesa hérna upp. Ekki einn einasti aðili. Engir þeir sem vinna í þessum málaflokkum, engir sérfræðingar sem vinna að þessum málaflokkum, enginn starfsmaður þeirra stofnana sem hér um ræðir er sammála því. Hverra mat er þetta þá? Hver leggur það mat á þetta frumvarp að áhrif sameininganna séu jákvæð og ekki þörf á að líta til eða bregðast sérstaklega við neikvæðum og íþyngjandi þáttum? Það hlýtur að vera sá sem hefur svona brennandi áhuga á að fá þetta í sínar hendur, þ.e. hæstv. forsætisráðherra. Engar umsagnir.

Ekkert álit sem komið hefur fram frá aðilum úr þessum geira tekur undir neitt af því sem ég las upp áðan um mat á áhrifunum. Þvert á móti hafa þrír prófessorar við Háskóla Íslands sent hæstv. forsætisráðherra bréf og ljúka því á því að segja að það verði stórslys verði frumvarpið samþykkt. Þeir segja að til þess að Þjóðminjasafnið geti uppfyllt hlutverk sitt sem höfuðsafn og háskólastofnun verði það að geta stundað öflugar rannsóknir. Þeir segja jafnframt, með leyfi forseta:

„Með sameiningu við eftirlitsstofnunina á sviði minjavörslu væri safnið í raun dæmt úr leik sem rannsóknastofnun á sviði íslenskrar fornleifafræði. Það væri stórslys.“

Þetta frumvarp hæstv. forsætisráðherra er stórslys að mati þriggja prófessora við Háskóla Íslands. Það er raun og veru inntak allra þeirra sem leggja mat á frumvarpið.

Félag íslenskra safna og safnamanna lýkur yfirlýsingu sinni á þessum orðum, með leyfi forseta:

„Í ljósi þessa“ — sem kemur fram í bréfinu og er of langt mál að lesa upp hér — „skorar FÍSOS á forsætisráðuneytið að falla frá fyrirhuguðu frumvarpi til laga og fyrirhugaðri sameiningu Minjastofnunar Íslands og Þjóðminjasafns Íslands. Efna þess í stað til víðtæks samráðs við fagfólk og fræðafólk á sviði safna, rannsókna og minjavörslu á Íslandi.“

Fram kemur í bréfinu að ekkert samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila. Þetta hafi verið unnið í einhverjum myrkrakompum í leyniherbergjum, sennilega uppi í forsætisráðuneytinu, sem enginn veit um. En það er ekkert samráð, hvergi nokkurs staðar er samráð þrátt fyrir það sem fylgir með yfirlýsingu og komið hefur fram varðandi þetta frumvarp, þ.e. að það sé afrakstur af ítarlegu samráði. Ekkert samráð hefur verið haft.

Yfirlýsing starfsmannafélags Fornleifastofnunar Íslands er á sama veg. Hún endar á þessum orðum, virðulegur forseti:

„Það hefur verið von okkar að fallið verði frá þessum áformum og uppbygging innan þessa mikilvæga og ört vaxandi málaflokks verði unnin í sátt og samvinnu fagaðila.“

Það er sem sagt engin sátt um málið. Það er engin samvinna. Það er ekkert samráð. Þannig virðist hæstv. forsætisráðherra helst vinna, að ræða ekki við nokkurn einasta aðila. Honum leiðist samráð, virðist vera. Hann virðist ekki hafa það í sér að ná sátt við nokkurn einasta mann heldur fer hann fram með nánast öll sín mál í bullandi ágreiningi við alla þá sem málið varðar og í bullandi ósætti. Hann virðist hafa það eitt að markmiði, mætti ætla, að valda sem mestum usla, sundrungu og óeiningu innan þeirra stofnana sem hann er að hræra í.

Hvað ætla menn svo að gera ef hæstv. forsætisráðherra mundi nú verða atvinnuvegaráðherra eftir helgi? Ætla þeir að flytja minjamálin með honum? Er þetta rétt eins og fé fylgi sjúklingi að stofnanir fylgi ráðherra? Hvað á að gera í forsætisráðuneytinu ef þangað kemur aðili, vonandi fyrr en síðar, sem hefur engan sérstakan áhuga á minjamálum líkt og núverandi forsætisráðherra hefur? Hvað á að gera við þennan málaflokk? Á að þvæla honum fram og til baka á milli ráðuneyta eftir áhugamálum, eftir því hver hefur mestan áhuga á viðkomandi málum? Hvar er faglegi hlutinn í þessu frumvarpi? Hann er enginn. Það er sú niðurstaða sem allir umsagnaraðilar komast að og allir hafa lýst yfir: Það er enginn faglegur ávinningur af þessu máli að nokkru leyti. Frumvarpið er unnið í fullu ósætti við alla aðila og alla þá sem láta sig þessi mál varða. Það eitt og sér að þannig sé búið um málið að það snúist fyrst og fremst um áhugamál (Forseti hringir.) forsætisráðherra, ekki annað, ætti að vera nóg til þess (Forseti hringir.) að málið væri ekki þingtækt.