145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[16:03]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Í orðræðu síðustu daga hef ég heyrt hæstv. forsætisráðherra tala um að hann hafi fórnað sér og bjargað íslensku þjóðinni. Það er oft freisting fyrir stjórnmálamenn að gera mjög mikið úr störfum sínum, en auðvitað er raunveruleikinn ekki svona einfaldur. Það er enginn einn maður sem er upphaf og endir alls í pólitísku tilliti. Það er ekki svoleiðis.

Ég vil koma hér upp af því að mér finnst mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra viti að þjóðin getur alveg bjargað sér án hans, maður kemur í manns stað. Núna er staðan orðin þannig að forsætisráðherra nýtur ekki lengur trausts. Eins og hv. þm. Páll Valur Björnsson útskýrði áðan er traust gríðarlega mikilvægt í pólitík og ráðherra sem nýtur ekki trausts er búinn að vera. Það er bara þannig. Hæstv. ráðherra getur ákveðið að teygja þetta í einhverja klukkutíma eða daga, (Forseti hringir.) en staðreyndin er sú að þetta er búið. Því fyrr sem annaðhvort hann eða félagar hans sjá að sér, þeim mun betra.