145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

trúverðugleiki Íslands.

[11:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Varla vefst það fyrir hæstv. ráðherra að orðstír Íslands hefur beðið verulegan skaða í kjölfar þessa máls. Óháð því hvort bankar verða einkavæddir í sumar eða á næsta ári þá skiptir máli að viðbrögðin hér á landi séu skýr og þau séu róttæk vegna þess að Ísland hefur nú í dágóðan tíma þurft að vinna upp orðstír sinn eftir hrun. Mikið til af uppgangi í efnahagnum á Íslandi er óneitanlega vegna ferðamannaiðnaðarins, ekki vegna þess endilega að yfirvöld hafi gert eitthvað sérstakt, nema á síðasta kjörtímabili ef út í það er farið án þess að ég vilji karpa um það hér og nú. Hæstv. ráðherra hlýtur að líta þennan skaða á orðstír Íslands á alþjóðavettvangi mjög alvarlegum augum. Orðstír okkar sökk mjög djúpt í hruninu. Þessir atburðir hafa opnað þau sár, ekki bara á Íslandi, held ég, heldur líka erlendis. Þess vegna finnst mér vanta hjá hæstv. ráðherra skýringar á því hvort hann (Forseti hringir.) telji ekki að afleiðingarnar hér þurfi að vera skýrari gagnvart erlendum aðilum.