145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti.

668. mál
[16:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum til að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti. Þessar breytingar eru af ólíkum toga og áhrif einstakra tillagna á afkomu ríkissjóðs eru þó nokkuð mismunandi og mun ég í umfjöllun um hverja breytingartillögu gera nánari grein fyrir þeim.

Í fyrsta lagi er skattlagning á kauprétti hlutabréfa. Fyrst ber að nefna að í frumvarpinu er lagt til að sú breyting verði á skattalegri meðferð tekna vegna kaupa manns á hlutabréfum samkvæmt kauprétti, sem hann hefur öðlast vegna starfa fyrir annan aðila, að þær verði skattlagðar við sölu bréfanna í stað afhendingardags eða innlausnar eins og nú er.   Verði frumvarpið að lögum mun því starfsmaðurinn hvorki greiða skatt af kauprétti sínum á samningsdegi né þegar hann leysir bréfin til sín. Skattlagningu er frestað þangað til bréfin eru seld og mun mismunur á kaupverði samkvæmt kaupréttarsamningi og söluverði teljast til launatekna.

Í dag á skattlagning sér stað við nýtingu og innlausnarverð, sem lagt var til grundvallar við launaskattlagningu kaupaukans, þá talið sem stofnverð við síðari sölu, og hagnaður af sölunni þannig talinn til fjármagnstekna í hendi seljanda. Þetta er breyting sem mikið er kallað eftir. Mér fannst athyglisvert að sjá í fréttum í dag frá Svíþjóð að stjórnendur þess fyrirtækis sem rekur þann vinsæla tónlistarvef Spotify bentu á að gallar í skattalögum í Svíþjóð varðandi einmitt þetta atriði, kaupréttinn, valdi fyrirtækinu vandkvæðum. Hérna er um að ræða ákvæði sem varðar það bara, eins og ég hef hér rakið, hvenær skattlagningin fer fram.

Í öðru lagi er skattlagning breytanlegra skuldabréfa. Hagnaður eiganda breytanlegra skuldabréfa sem breytt er í hlutabréf á lægra verði en gildir almennt á markaðnum er í dag skattlagður við nýtingu breytiréttarins. Sé eigandinn einstaklingur þarf hann því að standa skil á fjármagnstekjuskatti þótt hann hafi ekki selt nein bréf með hagnaði. Hlutafé er eðli málsins samkvæmt áhættuhlutafé og því sá möguleiki alltaf fyrir hendi að það tapist að fullu og hefur þá eigandinn greitt skatt af einhverju sem á endanum varð mögulega ekkert nema tap.  

Þess vegna er lagt til í frumvarpinu að skattlagningunni verði frestað fram að sölu hlutabréfanna, í tilviki einstaklinga, en slíkt myndi gera þennan fjármögnunarkost mun meira aðlaðandi fyrir fjárfesta auk þess sem skattlagningin verður sanngjarnari. Gert er ráð fyrir því að fjárhagsleg áhrif tillagna um breytta skattlagningu kaupréttar og breytanlegra skuldabréfa verði innan tekjuramma fjárlaga til framtíðar séð þótt einhver tilfærsla kunni að eiga sér stað í tekjuskattsgreiðslum milli ára.

Í þriðja lagi er skattlagning erlendra sérfræðinga. Í frumvarpinu er að finna tillögu til skattaívilnana til handa erlendum sérfræðingum sem byggð er á sænskri fyrirmynd. Tillagan hvetur til þess að fyrirtæki komi á fót hágæðastarfsemi innan lands og gerir þeim auðveldara fyrir að fá til sín aðila sem búa yfir nauðsynlegri þekkingu og hæfni svo ekki þurfi að fara með viðkomandi starfsemi úr landi. Koma erlendra sérfræðinga styrkir einnig kennslu, tækni, rannsóknir, þróun og nýsköpun í landinu,   mál sem öll lönd keppast við að sjá lifna við eða skjóta rótum og dafna á sínu heimasvæði. Erlendir sérfræðingar sem dvelja hér á landi í takmarkaðan tíma geta ekki notið til fulls þeirrar opinberu þjónustu sem fjármögnuð er með sköttum. Þeir sem standa utan EES og sækja um atvinnu- og dvalarleyfi á Íslandi þurfa til að mynda að verða sér úti um eigin sjúkratryggingu. Auk þess nýta erlendir sérfræðingar ekki opinberar atvinnuleysis- eða örorkutryggingar þar sem dvalarleyfi þeirra eru veitt á grundvelli atvinnu. Þá hafa erlendir sérfræðingar sótt sér menntun í skólum erlendis og hið opinbera hefur því ekki borið neinn kostnað vegna menntunar þeirra. Þetta má segja að sé alveg algild meginregla þó að hægt sé að finna einstaka undantekningar á henni.

Mikil verðmæti geta verið fólgin í því að fá sérfræðiþekkingu til landsins þar sem þekking er af skornum skammti á einstaka sviðum. Vegna þessa hafa lönd eins og Danmörk, Svíþjóð, Noregur, Finnland, Holland og Kanada sett reglur um nákvæmlega þetta, skattalega hvata til að laða til sín erlenda sérfræðinga, og eru þær mikilvægur liður í að tryggja samkeppnishæfni í viðskiptaumhverfi viðkomandi landa.  

Ísland er eina Norðurlandaþjóðin sem ekki hefur lögfest ákvæði sem ætlað er að bæta umhverfi erlendra sérfræðinga, svo sem sérfræðinga í rannsóknum og þróun, framleiðslu, stjórnun, skipulagningu, markaðssetningu, verkfræði, fjármálum, upplýsingatækni, samskiptatækni og kennslu, svo eitthvað sé nefnt.

Þeir erlendu sérfræðingar sem munu nýta sér heimildina verða einungis skattskyldir af 75% tekna sinna en 25% þeirra verða skattfrjálsar og undanþegnar staðgreiðslu fyrstu þrjú árin frá ráðningu í starf. Eftir sem áður eru tryggingagjald og lífeyrisiðgjöld greidd af heildarlaunum án tillits til frádráttarins. Hið sama gildir um greiðslur barna- og vaxtabóta. Gert er ráð fyrir stofnun sjálfstæðrar nefndar sem fari yfir skriflegar umsóknir og staðfesti eða hafni að tiltekinn erlendur sérfræðingur uppfylli skilyrði ákvæðisins fyrir frádrætti frá tekjuskattsstofni.  

Bein áhrif skattaívilnana til handa erlendum sérfræðingum á afkomu ríkissjóðs eru afar óljós. Halda má því fram að þau verði jákvæð þar sem viðkomandi sérfræðingur hefði ella ekki orðið íslenskur skattþegn. Það sem fyrst og fremst er óljóst er hvaða áhrif innflutningur erlendra sérfræðinga undir formerkjum skattalegra hvata mun hafa á innlendan vinnumarkað þegar eftirspurn eftir vinnuafli er eins mikil og nú er. Í ljósi þessarar óvissu er ekki reiknað með ávinningi eða kostnaði af þessari aðgerð fyrir afkomu ríkissjóðs að svo stöddu. Hér er nærtækt að vísa til þess að önnur lönd, öll þau lönd sem ég hef hér nefnt og ekki síst Norðurlöndin, hafa séð ástæðu til að innleiða og viðhalda ákvæðum af þessum toga.

Í fjórða lagi er skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa. Í frumvarpinu er að finna breytingartillögu sem tekur til álagningar opinberra gjalda á næstum þremur árum, á árunum 2017, 2018 og 2019, vegna fjárfestinga á árunum 2016, yfirstandandi ári, 2017 og 2018, og felur það í sér að komið verði á fót nýju skattafsláttarkerfi fyrir einstaklinga varðandi hlutafjárkaup. Einstaklingar sem bera takmarkaða og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi og sem fjárfesta í félögum sem uppfylla skilyrði ákvæðisins munu geta dregið frá tekjuskattsstofni sínum að viðbættum fjármagnstekjum 30% af fjárfestingunni á hverju ári. Við það er miðað að lögin taki til fjárfestinga á árinu 2016 að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins að öðru leyti.  

Markmið tillögunnar er að stuðla að nýsköpun og fjölgun starfa með því að hvetja fjárfesta sem stunda fjárfestingar í nokkrum mæli til að leggja fyrirtækjum í vexti til nýtt hlutafé. Undirliggjandi er sú staðreynd að óskráð fyrirtæki sem eru komin af sprotastiginu og í þann mund að byrja að vaxa hafa oft takmarkaðan aðgang að viðbótarfjármögnun í formi lánsfjár eða hlutafjáraukningar enda yfirleitt um áhættufjárfestingar að ræða. Á hinn bóginn getur vöxtur slíkra fyrirtækja leitt til aukinnar hagsældar fyrir samfélagið í heild til lengri tíma litið. Verði frumvarpið að lögum mun það leiða til þess að lítil fyrirtæki geti aukið hlutafé sitt fyrir tilstuðlan fjárfestinga af hálfu einstaklinga í tilviki aukningar á hlutafé í hlutafélögum og einkahlutafélögum.  

Í frumvarpinu koma fram þau skilyrði sem bæði einstaklingar og félög þurfa að uppfylla svo slík fjárfesting geti talist frádráttarbær frá tekjuskattsstofni einstaklinganna.

Til að eiga rétt á frádrætti þarf einstaklingur að fjárfesta í félagi fyrir að lágmarki 500 þús. kr. á almanaksári. Ekki er veittur frádráttur vegna heildarfjárfestinga umfram 10 milljónir á ársgrundvelli. Þá er gerð krafa um að einstaklingur geti sýnt fram á að fjárfesting hafi að fullu verið greidd. Með því er tryggt að greitt hafi verið fyrir hlutafé einstaklingsins fyrir úthlutun hlutabréfanna og slíkt leiði jafnframt til eðlilegrar hlutafjáraukningar í félaginu. Þá er það einnig skilyrði að fjárfesting sé til komin vegna hlutafjáraukningar í félagi og nær fjárfestingin ekki til frekari hlutafjáraukningar í félaginu í kjölfarið. Félagið skal jafnframt hafa skilað lista til ríkisskattstjóra um þátttakendur hlutafjáraukningarinnar og aukningin skráð í hlutafélagaskrá.   Til að geta fjárfest í félagi má einstaklingurinn sem fjárfestir ekki vera tengdur félaginu eða félagasamstæðum þess á ákveðnu tímabili, þ.e. tveimur árum fyrir og þremur árum eftir skráða hlutafjáraukningu.

Hér er ég búinn að rekja skilyrðin sem snúa að þeim sem fjárfestir en varðandi félögin sem fjárfest er í eru líka ákveðin skilyrði. Í fyrsta lagi þarf félagið að vera stofnsett á Íslandi. Fjárfesting tekur þó einnig til félaga sem stofnsett eru í öðrum EES-ríkjum, EFTA-ríkjum eða Færeyjum ef þau eru með fasta starfsstöð á Íslandi. Í öðru lagi tekur ákvæðið einungis til fjárfestinga í félögum sem eru ekki með fleiri en 25 starfsmenn og félagið er með árlega veltu undir 650 millj. kr. og/eða efnahagsreikning undir 650 millj. kr., en miða þarf við samþykktan ársreikning síðasta reikningsárs. Í þriðja lagi þarf greiðslum á öllu lágmarkshlutafé vegna stofnunar félags að vera lokið og félag sé þar af leiðandi ekki lengur á frumstigi starfsemi sinnar heldur á vaxtarstigi. Í fjórða lagi tekur ákvæðið ekki til félaga sem eru skráð eða hafa verið skráð á hlutabréfamarkað, þar með talið markaðstorg fjármálagerninga.   Í fimmta lagi tekur ákvæðið ekki til félags sem hefur frá tímamarki upphaflegu hlutafjáraukningarinnar verið starfandi á markaði lengur en fjögur ár frá fyrstu sölu þess í viðskiptalegum tilgangi, þ.e. frá þeim tíma sem hvers kyns vara/þjónusta þess var seld í fyrsta sinn í viðskiptalegum tilgangi á vöru- eða þjónustumarkaði fyrir utan takmarkaða sölu til að prófa markaðinn. Í sjötta lagi þarf félagið að vera rekið í hagnaðarskyni, þ.e. með það að markmiði að stuðla að hagnaði, og í því samhengi þarf að vera um að ræða skattskyldan lögaðila sem ekki er undanþeginn skattskyldu samkvæmt ákvæðum tekjuskattslaga. Í sjöunda og áttunda lagi falla félög sem eiga í fjárhagsvanda utan gildissviðs ákvæðisins og það sama gildir um félög sem íslenska ríkið á útistandandi endurgreiðslukröfu á vegna ólögmætrar ríkisaðstoðar. Í níunda lagi gerir frumvarpið ráð fyrir að félög hafi skilað ársreikningi innan tilskilins frests og í tíunda lagi að andvirði hlutafjáraukningarinnar verði notað í þágu viðskiptastarfsemi þess eða í undirbúning á slíkri viðskiptastarfsemi.   Í ellefta lagi er kveðið á um það að heildarhlutafjáraukning í félagi geti numið 2 milljörðum kr. og ef félagið er hluti af félagasamstæðu nái þetta hámark til þeirrar samstæðu í heild. Í tólfta lagi er kveðið á um að hægt sé að nýta sér skattafslátt samkvæmt frumvarpinu ef félagið hefur hlotið staðfestingu ríkisskattstjóra um að það uppfylli skilyrði ákvæðisins á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður og getur hann krafið félagið um þau gögn sem hann telur nauðsynleg. Ákvörðun ríkisskattstjóra má skjóta til yfirskattanefndar eftir ákvæðum laga um yfirskattanefnd. Jafnframt er kveðið á um eftirlit ríkisskattstjóra og upplýsingaskyldu gagnvart almenningi, en augljós nauðsyn er á því að einstaklingum sé um það kunnugt fyrir fram hvort fyrirhuguð kaup á tilteknum hlutabréfum verði talin falla undir reglur laganna um frádrátt.  

Með frumvarpinu er ekki farin sú leið að einskorða skattafsláttinn við fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum, enda afar erfitt að afmarka með skýrum hætti hvaða félög teljist nýsköpunarfyrirtæki. Farin er sú leið að félög í ákveðinni starfsemi sem ekki er talið nauðsynlegt að styðja sérstaklega við með sérstökum skattafslætti falla utan gildissviðs ákvæðisins. Hér er úr dálítið vöndu að ráða en þegar gert er upp á milli ólíkra leiða þykir ekki alveg úr vegi að horfa til eðlis starfseminnar. Ólíkar ástæður búa að baki því að ekki er talin ástæða til að hvetja til og styrkja fjárfestingar í þessum tilgreindu atvinnugreinum sem fram koma í frumvarpinu og er nánari grein gerð fyrir þeim sjónarmiðum í greinargerð frumvarpsins. Nefna má að starfsemi sem felst í viðskiptum með fasteignir og útleigu fasteigna eða lausafjár fellur ekki hér undir; starfsemi eignarhaldsfélaga fellur ekki undir lögin, starfsemi sem felst í útseldri þjónustu og ráðgjöf sérfræðinga og starfsemi sem felst í kvikmyndaframleiðslu, en eins og allir vita nýtur kvikmyndageirinn á Íslandi sérreglna í stórum stíl.  

Ef einstaklingur selur bréf sín í félagi innan þriggja ára er gert ráð fyrir því að bakfæra skuli frádráttinn enda er skattafslátturinn ekki hugsaður vegna skammtímafjárfestinga. Hið sama gildir ef einstaklingur gerist tengdur félaginu eða ef félagið eða starfsemi þess uppfyllir ekki lengur skilyrði ákvæðisins eða fellur ekki undir ákvæðið, t.d. ef félagið skráir sig á hlutabréfamarkað innan þriggja ára frá því að fjárfestingin fór fram. Það á þó ekki við á þriggja ára tímabilinu eftir hlutafjáraukninguna ef félaginu er slitið á grundvelli raunverulegra, viðskiptalegra ástæðna. Nýttur frádráttur skal færast til tekna á söluári viðkomandi hlutabréfa.

Gert er ráð fyrir því að ef skattafslátturinn er hærri en tekjuskattsstofn skattaðila að viðbættum fjármagnstekjum á almanaksári færist það sem umfram er milli ára þar til hann er fullnýttur en þó ekki lengur en næstu þrjú ár. Það sem er ónýtt af frádráttarheimildinni að þremur árum liðnum fellur niður.  

Þá er gert ráð fyrir heimild ráðherra til að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd ákvæðisins.

Það skattafsláttarkerfi sem hér er lagt til getur fallið innan laga hópundanþágureglugerðar ESB, um aðstoð vegna áhættufjárfestingar, nr. 651/2014, sem tók gildi þann 1. júlí 2014. Kerfið þarf því ekki að tilkynna sérstaklega til ESA og fá samþykki fyrir því áður en það tekur gildi.

Varðandi mat á áhrifum þessa nýja fjárfestingarkosts á tekjuskatt einstaklinga er rennt algjörlega blint í sjóinn, ekki síst í ljósi þess að um er að ræða áhættufjárfestingu eins og fyrr segir en ekki almennt sparnaðarform fyrir einstaklinga. Hér er farin sú leið að hreinlega giska á að 1.200 einstaklingar muni nýta sér afsláttinn á gildistíma afsláttarins, þ.e. þessi næstu þrjú ár, (Gripið fram í.) þó ívið færri fyrsta árið. Þetta er allt gert í þágu þess að draga upp einhverja sviðsmynd til að byggja undir umræðu um áhrif málsins á tekjur ríkissjóðs. Á grundvelli þessara forsendna er áætlað tap ríkissjóðs á tekjuskatti einstaklinga 300 milljónir fyrsta árið, 400 milljónir síðari árin tvö. Það skal áréttað að hér er um bein skammtímaáhrif að ræða sem ættu að jafnast út til lengri tíma litið   vegna þess að ef breytingin nær markmiðum sínum munu fleiri fyrirtæki vaxa og dafna og að sjálfsögðu skila tekjum til baka þannig að hugsunin með frumvarpinu er að sjálfsögðu að vera jákvæð til lengri tíma litið fyrir tekjuöflun ríkisins.

Í fimmta lagi er hækkun viðmiðunarfjárhæða frádráttar vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja. Í frumvarpinu er lagt til að núgildandi skattaívilnanir til nýsköpunarfyrirtækja sem er að finna í lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki verði hækkaðar verulega. Annars vegar er lagt til að hámark á rannsóknar- og þróunarkostnaði til almennrar viðmiðunar á frádrætti hækki úr 100 millj. kr. í 300 millj. kr. og hins vegar að hámark á rannsóknar- og þróunarkostnaði til viðmiðunar frádrætti hækki úr 150 millj. kr. í 450 millj. kr. þegar um aðkeypta rannsóknar- og þróunarþjónustu er að ræða frá ótengdu fyrirtæki, háskóla eða rannsóknastofnun.  

Það er stefna stjórnvalda að auka stuðning og efla rannsóknir við tækniþróun á Íslandi og er þessi hækkun viðmiðunarmarka mikilvægur áfangi á þeirri braut. Við álagningu opinberra gjalda á fyrirtæki, fyrir árið 2015 miðað við rekstur ársins 2014, námu þessar ívilnanir 1,2 milljörðum kr. Rétt er að taka fram að litið er á þessa fjárhæð sem beinan ríkisstyrk og er hún sem slík færð sem fjárfestingaútgjöld hjá ríkissjóði en ekki sem lækkun á tekjuskatti félaga. Að mati stjórnvalda hafa þessar reglur stuðlað að arðbærum rannsóknum og þróun fyrirtækja á undanförnum árum í takt við stefnu stjórnvalda og þar af leiðandi talið eðlilegt að hækka þær nokkuð umfram verðlagsþróun á tímabilinu. Báðar þessar viðmiðunarfjárhæðir hafa staðið óbreyttar frá því að lögin tóku gildi og því orðið tímabært að hækka þær.  

Eins og ég nefndi nam þessi ívilnun samtals 1,2 milljörðum kr. á árinu 2015 vegna útgjalda á árinu 2014. Gert er ráð fyrir að sú fjárhæð geti hækkað um um það bil 1 milljarð kr. á ársgrundvelli en vissulega er erfitt að spá nákvæmlega fyrir um það.

Í sjötta lagi er leiðrétting á veltuviðmiði við skilgreiningu lítilla fyrirtækja og tilvísun í nýja reglugerð. Að lokum er lögð til leiðrétting á veltuviðmiði við skilgreiningu lítilla fyrirtækja og tilvísun í nýja reglugerð í lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og lögum um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi. Samkvæmt reglugerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er miðað við að árleg velta lítilla fyrirtækja sé undir 10 milljónum evra og/eða efnahagsreikningur undir 10 milljónum evra en ekki 2 milljónum evra eins og gildandi lög tiltaka. Því er lögð til leiðrétting á fjárhæðunum, auk þess sem rétt þykir að breyta tilvísun í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar þar sem ný reglugerð hefur leyst þá eldri af hólmi.   Ekki verður séð að þessi leiðrétting muni hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Virðulegi forseti. Samanlögð áhrif frumvarpsins, verði það samþykkt óbreytt, verða í einhverjum mæli neikvæð til skamms tíma litið. Sem dæmi má nefna að hlutabréfaafslátturinn mun fyrst hafa áhrif á álagningu tekjuskatts hjá einstaklingum til lækkunar árin 2017–2019 eins og ég hef áður lýst. Þá mun aukinn stuðningur við fyrirtæki sem eru að fjárfesta í rannsóknum og þróun hækka fjárfestingaútgjöld ríkissjóðs og því hafa neikvæð áhrif á afkomuna til skemmri tíma litið. Til lengri tíma litið ættu hins vegar áhrifin að vera þau að við sjáum jákvæða þróun á tekjuhlið ríkisfjármálanna enda tilgangur breytinganna allra að stuðla að aukinni hagsæld til framtíðar.

Ég hef ekki rakið það sérstaklega en tímamörkin varðandi skattafslátt vegna hlutabréfakaupa eru með sínum hætti hugsuð til þess að við metum stöðuna þegar fram í sækir. Það hefur verið vinna í mörg ár að setja saman nákvæmlega þessar tillögur. Eins og menn hafa tekið eftir eru í tilfelli hlutabréfakaupanna í fyrirtækjum í vexti ótal skilyrði, bæði varðandi kaupandann og félögin sjálf, sem þarf að uppfylla svo reglurnar gildi og afslátturinn komi til framkvæmda. Um nákvæmlega þessi efni hafa reglur Evrópusambandsins tekið nokkrum breytingum á undanförnum árum en við höfum fundið fyrir því í þessari ríkisstjórn á þessu kjörtímabili að það er verulega þrýst á um það frá þeim sem starfa á þessum vettvangi, við að hlúa að fyrirtækjum sem eru að komast upp af sprotastiginu yfir á vaxtarstigið, að betur verði gert í að laga regluverkið og auka samkeppnishæfni Íslands þegar kemur að því að tryggja á Íslandi þessi framtíðarstörf og þessa framtíðarstarfsemi. Hér er komið til móts við þetta og ég vil taka það fram að við höfum átt gott samtal og ágætissamráð um öll þessi atriði við þá sem starfa á vettvangi þessara mála. Ég tel að okkur hafi tekist vel til við að mæta þeim sjónarmiðum sem þarf að líta til. Eins og svo oft má hafa skoðun á útfærslunni en sú útfærsla sem hér birtist hefur fengið mikla rýni í langan tíma og ég vil þakka öllum þeim sem hafa átt samstarf við okkur um þessa útfærslu og lagt gott til málanna.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.