145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

viðbrögð stjórnvalda við skattaskjólum.

[14:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er ítrekað vegið að trúverðugleika ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Ég hef rakið að löngu áður en þetta mál kom upp vorum við virk í alþjóðlegu samstarfi um að uppræta rót vandans, sem er upplýsingaskorturinn, með þátttöku okkar á vettvangi OECD og víðar. Við höfum sett fjármuni í að kaupa gögn af þeim toga á síðasta ári til þess að stofnanir okkar, sem hafa það sérstaka hlutverk að ná í skottið á svikurunum, hefðu tækin og tólin og stuðning stjórnvalda til að sinna hlutverki sínu. Þetta eru skýr merki um forgangsröðun ríkisstjórnar sem ætlar ekki að sætta sig við skattsvik. Þetta eru mál sem við vorum búin að afgreiða og grípa til löngu áður en þetta mál kom upp. Hafi menn ekki heyrt mig segja það hér þá hef ég margítrekað látið það koma fram í verkum, t.d. með samskiptum ráðuneytis míns við þær stofnanir sem vinna á þessu sviði, að við ætlum að nýta gögnin, öll tækifæri sem við getum haft og fengið til okkar til að sinna þeim hlutverkum betur.

Mér finnst menn slá dálítið úr og í varðandi það hvert verkefnið er. Menn vilja taka umræðuna á mjög breiðum grundvelli. Menn vilja setja á sömu hilluna þá sem hafa gert hreint fyrir sínum dyrum, hafa ekkert að fela, hafa fylgt íslenskum lögum og reglum og hina sem eru að fela sig og reyna að komast undan sanngjarnri skattlagningu. Þetta finnst mér ómerkilegt. Ég ætla að taka það fram.

Hér er spurt: Eigum við ekki að banna mönnum að geyma peninga eða vera með einhverja starfsemi á aflandssvæðum? Hvað haldið þið að það þýði að banna fólki sem af ásetningi svíkst undan og gefur ekki sitt upp? Hvað haldið þið að þýði að fara að banna það? Það er þegar bannað að gefa ekki upp skattana sína. Það er þegar bannað að gefa ekki upp tekjur og koma ekki til baka hingað með skattgreiðslur af svona starfsemi. Það er þegar bannað. Ég held að frekari bönn við því séu ekkert sérstaklega líkleg þegar við eigum við fólk sem af ásetningi kemur sér undan lögum.

Svo er ágætt í þessari breiðu umræðu sem menn hafa aðeins verið að efna til hér um samkeppni landa í (Forseti hringir.) skattamálum að minna á það að við erum fyrir ýmsa starfsemi ágætisskattaskjól. Eigum við að nefna kvikmyndaiðnaðinn þar sem við borgum 20% til baka (Forseti hringir.) af öllum innlendum kostnaði, stefnum (Forseti hringir.) að 25%, eða varanlegan afslátt af sköttum til stóriðjufyrirtækja (Forseti hringir.) sem var afgreiddur á síðasta ári o.s.frv.? Lönd verða áfram í samkeppni um skattamál. Aflandsmálin eru sérstakt viðfangsefni. Þar er alþjóðlega (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) samstarfið algerlega kjarnaatriði fyrir árangur okkar á því sviði. (Gripið fram í.)