145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:14]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir hlý orð í minn garð. Við deilum augljóslega skoðunum í þessum málum. Ég hef stuttan tíma núna þannig að ég ætla ekki að dvelja við þau atriði sem ég ræddi í minni fyrri ræðu. Mig langar að renna örsnöggt yfir nokkur atriði sem mér finnst þurfa að tæpa á. Mig langar að benda á það sem mér finnst stærstu línurnar í þessari áætlun og hvert mér finnst liggja beinast við að peningarnir fari. Það er annars vegar í nýframkvæmdir á Vestfjörðum. Ég er mjög ánægður með að þeir fari þangað þar sem er mikil þörf fyrir nýframkvæmdafjárfestingu. Hins vegar tel ég vanta mikið viðhaldsfé í Suðurkjördæmi, sérstaklega í kringum náttúruperlurnar okkar og þar sem við fáum gríðarlega marga ferðamenn. Þá er ég bæði að tala um tengivegi og líka hættulega kafla eins og Selfoss–Hveragerði, en það verkefni á að hefjast núna á þessu ári og Hellisheiðin klárast í ár. Ég er mjög hrifinn af þessu.

Mér finnst hins vegar ekki nógu mikið gert í hafnamálum. Ég hef nefnt það áður og nefni það aftur að ég held að við þurfum að bæta í hafnirnar. Hafnirnar eru landinu mjög mikilvægar, þær eru mikilvægar fyrir ýmsar atvinnugreinar, og ég vil nefna sérstaklega höfnina í Þorlákshöfn sem er líklega þjóðhagslega arðbærasta samgöngumannvirkið sem við gætum ráðist í.

Síðan hef ég gríðarlegar áhyggjur af Landeyjahöfn. Hún var lokuð, a.m.k. fyrir Herjólfi, frá desember fram yfir páska. Ég legg til að ráðherra skoði það að setja af stað einhvers konar rannsóknarvinnu um hvernig við getum haldið þessari höfn opinni. Nýtt skip, sem vonandi kemur fljótlega, getur aukið öryggi Vestmannaeyinga og atvinnustarfsemi þar.

Virðulegur forseti. Ég hef ekki mjög mikinn tíma í viðbót en ætla þó að nefna eitt atriði sem því miður hefur ekki borið á góma í umræðunni í dag, Hvalfjarðargöngin. Afhending Hvalfjarðarganganna frá Speli til ríkisins gæti orðið eftir um tvö ár og þá mun ríkið fá þessi göng í fangið. Rekstur þeirra mun kosta ríkið um 200–250 milljónir á ári. Ætlum við að halda áfram með gjaldtöku? Ætlum við að hætta með gjaldtöku? Ætlum við að undirbúa ný göng? Ég held að við þurfum að fara að taka þessa umræðu mjög fljótlega því að það tekur þrjú til fjögur ár að byggja ný gögn ef við ætlum að ráðast í þau. Gert er ráð fyrir að dagsspá fyrir göngin muni ná hámarki í kringum 2020–2021. Ég held að það sé virkilega þörf umræða fyrir okkur að fara að taka ákvörðun um hvort við ætlum að takmarka umferð um göngin þegar þetta gerist og beina fólki þá um Hvalfjörð, eða ætlum við að stefna að því að gera önnur göng við hliðina og hvernig tökum við ákvörðun í því máli?