145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

ákvörðun um kjördag og málaskrá.

[15:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Jú, mikið rétt, ég ætla að gera þriðju tilraunina til að draga upp úr hæstv. forsætisráðherra eitthvað skýrari svör um stöðuna í þinginu og kjördag. Í reynd held ég að það sé að birtast okkur að hæstv. ráðherrar, forustumenn stjórnarflokkanna, virðast ekki hafa áttað sig á því sjálfir hvað var fólgið í því loforði sem þeir gáfu um kosningar í haust. Hæstv. forsætisráðherra ber það saman við að menn viti á reglubundnu kjörtímabili hvenær verði kosið. Já, hér er algerlega ósambærilegum hlutum saman að jafna. Fyrirheitið var um óreglubundinn kjördag, að stytta kjörtímabilið. Þá skiptir miklu máli að sú dagsetning liggi fyrir sem fyrst. Við vitum öll hvernig lög og stjórnarskrá eru. Ef ekki kemur til ákvörðunar um óreglubundinn kjördag þá er það síðasti laugardagur fyrir fjögur ár frá því síðast var kosið og það liggur fyrir í fjögur ár. En núna liggur ekkert slíkt fyrir. Það er mikill munur á því praktískt og efnislega fyrir marga hvort kosið yrði t.d. í byrjun september eða lok október eða jafnvel inn í nóvember. Það er hægt að nefna mörg praktísk rök fyrir því. Eitt er til dæmis þúsundir Íslendinga búsettir erlendis sem eru fallnir út af kjörskrá en geta tilkynnt sig með tilteknum fyrirvara inn á kjörskrá vilji þeir taka þátt í kosningum. Þeir vita hvaða tíma þeir hafa til þess ef um reglubundinn kjördag er að ræða en ekki við svona aðstæður.

Þannig að ég endurtek og hæstv. forsætisráðherra hlýtur að geta gefið eitthvað upp um það: Er líklegt að kosið verði í byrjun september og Alþingi sem nú starfar ljúki störfum og rjúfi þing og geri þær bráðabirgðaráðstafanir að lögum sem mun þurfa að gera samanber þingskapalög um nýjan framkomudag fjárlagafrumvarps og annað í þeim dúr? Eða er ríkisstjórnin að hugsa um að færa þetta loforð sitt inn í veturinn, teygja haustið inn í svartasta skammdegið? Það er fullkomlega málefnalegt og eðlilegt að við fáum einhver svör um þetta.

Eins er það með forgangsmálalista ríkisstjórnarinnar. (Forseti hringir.) Það er í hæsta máta vandræðalegt fyrir hæstv. forsætisráðherra næstum hálfum mánuði eftir að hann tók við völdum að geta engin (Forseti hringir.) svör gefið um það. Það lá þá sem sagt ekki fyrir þegar þetta (Forseti hringir.) var sagt á sínum tíma að þarna væru einhver tiltekin og svo mikilvæg mál (Forseti hringir.) að stjórnin yrði að starfa áfram.