145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

munnleg skýrsla menntmrh. um þjónustusamning við Ríkisútvarpið ohf., fjölmiðil í almannaþágu.

[16:39]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra Illuga Gunnarssyni skýrsluna um þjónustusamning við Ríkisútvarpið fyrir árin 2016–2019. Framsóknarflokkur hefur alla tíð lagt áherslu á starfrækslu Ríkisútvarpsins. Í mínum huga hefur útvarpið mjög mikilvægu hlutverki að gegna í samfélagi okkar í dag. Stöðugt þarf þó að vera í gangi endurmat á áherslum og með því hvaða hætti hlutverkinu er best sinnt á hverjum tíma. Ég er ánægð með þær megináherslur sem birtast í þjónustusamningnum og það hversu ítarlegur hann er, sérstaklega áherslur á íslenskt gæðaefni fyrir börn, þjónustan við landsbyggðina, aðgengi að eldra efni og samstarf um öryggishlutverk, svo og áhersluna á innra eftirlit og ítarlegri ársskýrslur. Kveðið er á um að í allri starfsemi skuli gætt að samkeppnissjónarmiðum og að skýr áhersla verði lögð á menningar- og fræðsluhlutverkið, það fái forgang, þar á meðal áhersluna á íslenskt efni fyrir börn og langar mig að fara sérstaklega yfir nokkrar aðgerðir og viðmið sem snerta það verkefni. Þar er gert ráð fyrir að framleiðslukaup og meðframleiðsla á innlendu barnaefni með fjölbreyttu sniði verði aukin yfir samningstímann.

Lögð er áhersla á að þróa dagskrárefni til að efla læsi barna. Það er sérstaklega mikilvægt í dag, t.d. út frá möguleika tvítyngdra barna til að eiga jafna aðstöðu við að tileinka sér íslenskuna út frá jafnrétti til náms í víðu samhengi og þannig getur Ríkisútvarpið stutt við markmið Heimilis og skóla um betra læsi. Á tímabilinu skal bjóða upp á fræðsluefni á sviði vísinda og tækni sem ætlað er börnum og ungmennum. Þetta er hlutverk sem getur, ef vel er að staðið, stuðlað að því að þau markmið að auka áhuga á tækni og vísindum í samfélaginu almennt náist til lengri tíma litið. Aðgengi á vef Ríkisútvarpsins að barnaefni og safni skal aukið á tímabilinu og er það einn af mikilvægu þáttunum í þessu samhengi. En fleira er talið án þess að ég reki það hér. Þrátt fyrir að ég búi við þær aðstæður í fyrsta skipti á ævinni að á heimilinu eru ekki börn get ég ekki betur séð en við séum þegar farin að sjá þessar áherslur birtast í dagskrá Ríkisútvarpsins.

Að virku innra eftirliti og áherslu á gæðamál. Í þágu þess er gert ráð fyrir að stjórn Ríkisútvarpsins og starfsmenn þess setji sér ýmsar reglur og viðmið. Í mínum huga er innra eftirlit nauðsynlegt og sérstaklega mikilvægt í breytingarferlum. Innra eftirlit birtist í ýmsum myndum, t.d. setningu reglna um starfsemina, gildum og almennum leikreglum um hvernig markmiðum sé best náð. Þannig getur innra eftirlit aldrei orðið betra en sú vinna sem lögð er í að koma því á fót og viðhalda, en jafnframt stuðla að samheldni, jákvæðni og eftirfylgni allra sem koma að því og líkunum á því að markmiðið náist.

Í fyrsta sinn er kveðið á um að Ríkisútvarpið geti gegnt öryggishlutverki sínu í auknu samstarfi við aðrar stofnanir, svo sem almannavarnir, ríkislögreglustjóra eða Neyðarlínuna, ef það er hægt með sama eða lægri tilkostnaði. Ef svo ber undir ber Ríkisútvarpinu að hlutast til um að gengið verði til slíks samstarfs. Ég tel að á síðustu árum höfum við horft á ákveðin mistök við að tengja ekki betur saman þá aðila sem sinna öryggishlutverkinu og fannst mér það til dæmis koma í ljós á meðan á gosinu í Holuhrauni stóð að á þessum vettvangi væri hægt að gera miklu betur með skýrari verkferlum og betri tengingu upplýsinga. Þar hefur Ríkisútvarpið auðvitað lykilhlutverki að gegna. Við höfum góða upplýsingavefi og mælingar hjá stofnunum sem ekki er sérstaklega getið í þjónustusamningnum en ég tel að sé mikilvægt að horfa til í þessu samstarfi, svo sem Veðurstofuna og Vegagerðina og fleiri aðila.

Í þjónustusamningnum er ekki vikið frá þeirri kröfu að dreifing efnis nái til 99,8% heimila í landinu, en það er líka mikilvægt að heimild er til þess að semja við þriðja aðila um dreifingu á efni án þess að heimilin þurfi að leggja út í sérstakan kostnað vegna þess.

Þá er í samningnum gert ráð fyrir ítarlegri sundurliðun í ársreikningi á útgjöldum til einstakra liða í starfsemi RÚV og þetta ásamt árlegri greinargerð, þar sem greint er frá dagskrá og umfangi starfseminnar með ítarlegri hætti, tel ég víst að geti leitt til málefnalegrar umræðu um starfsemi RÚV bæði á Alþingi og í þjóðfélaginu öllu, auk þess sem það á að geta auðveldað forgangsröðun í starfseminni miðað við mismunandi hlutverk.

Þá fagna ég aukinni áherslu á notkun tæknilegra lausna til að koma til móts við þá sem ekki eru færir um að nýta sér hefðbundna fjölmiðlaþjónustu jafnframt því sem tekið skal tillit til aðgengis við kaup, framleiðslu og meðframleiðslu á öllu efni í dagskrá Ríkisútvarpsins.

Þegar á heildina er litið sé ég ekki betur en að þjónustusamningurinn leggi góðan grunn til þróunar öflugra Ríkisútvarps.