145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

upplýsingar um aflandsfélög og aflandskrónur.

[11:11]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vill gera greinarmun á því hvernig menn nýta aflandsfélög. Það hefur komið ítrekað fram í máli hans í þinginu að þetta mál snúist fyrst og fremst bara um skattundanskot en ekki um tilvist aflandsfélaga í skattaskjólum í heild sinni. Hæstv. ráðherra getur að minnsta kosti leiðrétt þann skilning, en þannig hef ég skilið hæstv. ráðherra meðan umræðan á alþjóðavettvangi, hefði ég talið að við gætum verið sammála um, snýst um það hvort tilvist þessara skattaskjóla ein og sér skekki ekki samkeppnisstöðu atvinnulífs þar sem spilað er eftir öðrum leikreglum eins og við höfum til dæmis sett okkur hér á landi. Við setjum okkur tilteknar leikreglur á Íslandi. Þeir sem spila eftir þeim eru í annarri samkeppnisstöðu en þeir sem eru með aflandsfélög í skattaskjólum. Tilvist þessara félaga, við hljótum að velta því fyrir okkur hvort hún sé eðlileg. Það er baráttan og umræðan á alþjóðavettvangi, og leyndin yfir því. En ég ætlaði ekki að spyrja um þetta.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um það sama og ég spurði hann um í síðustu viku og var þá talsverður hiti í umræðunni þannig að hæstv. ráðherra komst kannski ekki alveg til að svara mér í fyrirspurninni. Hún lýtur að þeim sem eiga aflandskrónur hér og er fyrirhugað að geti núna losnað út úr höftum í gegnum útboð á aflandskrónum. Sú krafa hefur verið uppi að grafist verði fyrir um eða leitað upplýsinga um raunverulegt eignarhald þeirra sem eiga þær aflandskrónur, þ.e. hvort þar séu einhvers konar aflandsfélög á meðal, þ.e. að Seðlabankinn afli þessara upplýsinga um raunverulega eigendur.

Finnst hæstv. ráðherra að slíkt komi til greina, og jafnvel þá að til greina komi að grípa til einhverra aðgerða sem komi í veg fyrir að þeim aðilum sem ekki vilja gefa upp raunverulegt eignarhald verði sleppt úr landi? (Forseti hringir.) Í gegnum útboð.