145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

kosningar í haust.

[11:45]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Forustumenn ríkisstjórnarinnar sögðu, ég held að það sé rétt með farið hjá mér að það hafi verið formaður Sjálfstæðisflokksins sem sagði það hér fyrir einhverjum vikum síðan, að tekið yrði eitt þing aftan af kjörtímabilinu. Eitt þing, það er þá 146. þing, en það á að hefjast annan þriðjudag í september. Það hlýtur að þýða, af því að ég vil nú enn þá reyna, að minnsta kosti stundum, að taka mark á forustumönnum þessarar ríkisstjórnar. Þó svo að við vitum náttúrlega að þeir lofuðu kosningum um umsóknaraðild að Evrópusambandinu og sviku það þá ætla ég enn að vona að hægt sé að treysta þeim. Það þýðir að það kemur ekkert þing saman annan þriðjudag í september, það verður að kjósa ekki síðar en þann dag. Við vitum svo hvenær þingið á að koma saman. (Forseti hringir.) Við hljótum að krefjast svara við þessu, forseti.