145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 252/2015 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

683. mál
[14:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 252/2015 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn um tæknilegar reglugerðir, staðla, prófanir og vottun og fella inn í samninginn reglugerð um samþykki fyrir starfsstöðvum sem framleiða spírur.

Í reglugerðinni eru settar kröfur um að spíruframleiðendur skuli metnir áður en þeir hefja starfsemi með tilliti til tiltekinna krafna sem þeir eiga að uppfylla til að fá starfsleyfi. Kostnaður vegna leyfisúttekta fellur á framleiðendur en ekki er um umtalsverðan kostnað að ræða. Matvælastofnun mun hafa eftirlit með þessari starfsemi og mun taka mið af stærð fyrirtækja við eftirlitið en framleiðendur spíra hér á landi eru smáir.

Innleiðing gerðarinnar kallar á lagabreytingar hérlendis og er gert ráð fyrir því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á lögum um matvæli á yfirstandandi þingi.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegur forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.