145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

lán til námsmanna erlendis.

[15:17]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Forseti. Ég vil spyrja hæstv. menntamálaráðherra um skoðun hans og stefnu varðandi það að íslenskir námsmenn sæki sér menntun erlendis. Þykir ráðherranum það góð hugmynd eða er eitthvað við það fyrirkomulag sem við höfum þekkt svo lengi og viðhaft hér, að íslenskir námsmenn fari utan, mennti sig í fjölbreyttum háskólum og komi svo flestir til baka hingað til lands til að lifa hér og starfa, sem ráðherrann setur spurningarmerki við?

Ég spyr vegna þess að undir stjórn hæstv. ráðherra hefur LÍN ítrekað lækkað framfærslu- og skólagjaldalán. LÍN hefur ákveðið að skerða kjör lánþega um allt að 30% með úthlutunarreglum sínum frá árinu 2013.

Forseti. Af hverju kippir ráðherra svona fótunum undan stúdentum við nám erlendis? Margir upplifa að fá ekki þau námslán sem lagt var upp með í byrjun náms, kannski komnir hálfa leið í náminu en sitja svo allt í einu uppi með það að geta ekki borgað skólagjöldin eða sjá enga leið til að framfleyta sér eða fjölskyldum sínum í viðkomandi landi af því að lánin lækka milli ára.

Er ráðherrann ánægður með þessi vinnubrögð LÍN? Styður hann þau? Er sanngjarnt að vera búinn að gefa það til kynna að nemendur fái lán en breyta svo forsendum ítrekað meðan á námi stendur? Er það ekki svo á Íslandi að við græðum hreinlega á því að fólk fari utan og sæki fjölbreytta menntun og reynslu og komi svo vel nestað heim? Er það ekki sameiginlegur skilningur okkar? Eða er það þannig að þeir einir mega núna mennta sig í útlöndum sem eiga peninga til þess eða eiga foreldra sem geta stutt þá áfram?