145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

lán til námsmanna erlendis.

[15:19]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég vil segja í upphafi máls míns að við fyrirspyrjandinn erum sammála um mikilvægi náms erlendis. Sjálfur sótti ég hluta af minni menntun til útlanda og hið sama gildir um marga hér inni.

Þetta mál snýst ekki um þá spurningu, þetta mál snýst um annað, það snýst um þá stefnu sem á að vera til grundvallar hjá lánasjóðnum þegar ákveðið er hvað á að lána mikið til hvers lands fyrir sig. Stefnan sem hér er verið að framfylgja er sú að leita eigi eftir því að finna framfærslugrunninn í viðkomandi landi og lána í samræmi við þann grundvöll. Auðvitað væri hægt að hafa aðra stefnu og hafa ekkert samhengi á milli námslánanna og framfærslugrunnsins í viðkomandi landi en ég tel skynsamlegt hjá jöfnunarsjóði eins og Lánasjóði íslenskra námsmanna að horfa til þess hver framfærslugrunnurinn er í viðkomandi landi og lána í samræmi við hann. Staðreyndin er sú að á undanförnum árum hefur sú staða myndast að í nokkrum löndum urðu skil á milli framfærslunnar annars vegar og framfærslugrunnsins hins vegar. Það á sér ýmsar ástæður en m.a. þá að á síðasta kjörtímabili voru námslánin hækkuð um 20% á Íslandi til að mæta verðbólgunni, sem gerir það að verkum að það var í sjálfu sér engin raunhækkun, en lán til námsmanna erlendis þar sem verðbólgan hafði verið 1–2%, kannski 3%, voru líka hækkuð um 20%. Það varð alveg gríðarleg raunaukning á þessum lánum án þess að sérstaklega væri útskýrt hvernig stóð á því. Það þýddi að t.d. í löndum eins og Ungverjalandi var lánið til framfærslu komið 60% fram úr því sem háskóli í því landi reiknar með að þurfi til framfærslu þar.

Mín spurning til hv. þingmanns sem kemur upp á eftir, og hv. þingmaður ræður auðvitað hvort hann svarar því, er þessi: Erum við ekki sammála um að hafa þá stefnu að lána (Forseti hringir.) í samræmi við framfærsluþörfina? Eða á að vera einhver önnur stefna? Ef niðurstaðan er sú að það á lána í samræmi við framfærsluþörfina, eigum við þá ekki að reyna að vera sammála um að finna hver hún er, ræða það og lána síðan í samræmi við það?