145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

lögreglulög.

658. mál
[18:06]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég var satt að segja svolítið dapur undir lok þessarar ræðu sem að mörgu leyti var alveg prýðileg hjá hæstv. ráðherra. Ég heyrði ekki betur en að ráðherrann tæki í einu og öllu undir þær röksemdir sem ég flutti áðan um nauðsyn eftirlits. Eini munurinn á mínu máli og hennar var að henni tókst að setja sitt mál fram með miklu meira „elókvent“ hætti en mér. Hún skilur þetta mál ívið betur en ég. Hún gerir sér grein fyrir því að hér er um að ræða viðkvæmasta hluta réttarríkisins. Við erum að færa lögreglunni miklar heimildir til að rannsaka líf okkar og ef nauðsyn krefur að brjóta það sem við lítum á sem eðlilega friðhelgi. Hæstv. ráðherra segir að hún telji að samhliða þeirri tilfærslu valds eigi jafnframt að setja fram auknar kröfur um lýðræðislegt eftirlit með meðferð þess valds. Herra trúr, ég gæti ekki sagt þetta með ljóðrænni hætti en hæstv. ráðherra gerir.

Lendingin var hins vegar allt önnur. Hún stakk upp í mig pela og sagði svo að við skyldum skoða þetta. Heldur hæstv. innanríkisráðherra að það sé hægt að taka undir allar röksemdir sem færðar eru fram og segja svo: Það er ekki búið að ræða málið nóg, við skulum skoða það betur?

Við erum búin að ræða þetta í áratug eða meira. Við höfum öll verið sammála um að það þarf lýðræðislegt eftirlit með þessum auknu heimildum og það er forsenda þeirra. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi auknar rannsóknarheimildir. Ég er líka þeirrar skoðunar, því miður, að illu heilli muni samfélagið þróast með þeim hætti að þær séu nauðsynlegar. Þess vegna tel ég að við eigum að búa okkur undir það með því að búa til það sem hæstv. ráðherra lýsti svo vel, að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fengi t.d. eitthvert hlutverk í þessum efnum. En ég get ekki sagt að ég sé (Forseti hringir.) sammála hæstv. ráðherra um að núna sé nauðsynlegt að taka þetta skref án þess að hitt sé tekið. Ég er ekki reiðubúinn að ljá því stuðning minn að svo stöddu.