145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

opinbert útboð á veiðiheimildum.

[14:06]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Veiðigjöld eru eitthvað sem við þekkjum vel í þessum sal, þau hafa mikið verið rædd. Ég hef gjarnan litið þannig á að veiðigjöldin séu fyrst og fremst aukaskattur á ákveðna landshluta, sér í lagi landsbyggðina. Þetta er gjald sem leggst hvað þyngst á fyrirtæki sem eru úti á landi. Ég hef sagt það opinberlega að sú aðferð sem er notuð til þess að reikna út veiðigjöld í dag er of flókin, við ættum kannski að gera það með öðrum hætti. En grundvallarhugsunin hjá mér og það sem ég velti fyrir mér er af hverju við tökum út eina atvinnugrein sem notar auðlindir landsins, hvers vegna reiknum við ekki einhvers konar afnotagjald á aðrar atvinnugreinar líka sem nýta auðlindir landsins, hvort sem það er raforka eða þess vegna loftbylgjur, vatn, hvað sem er, ferðaþjónusta þess vegna? Af hverju ein auðlind tekin út, eða grein?

Þá velti ég fyrir mér hver besta leiðin sé til þess ef við ætlum að setja allar atvinnugreinar undir sama hatt, sem ég held að væri skynsamlegt í sjálfu sér, það má ekki gera upp á milli atvinnugreina. Ég held að best væri að nota skattkerfið til þess. En á því eru að sjálfsögðu skiptar skoðanir.

Ég hef því miður ekki náð að setja mig inn í þær hugmyndir sem Færeyingar hafa verið að vinna með. Ég heyri hins vegar að þær eru mjög umdeildar, m.a. í Færeyjum. Ég er ekki sammála hv. þingmanni um að það renni of lítið í ríkissjóð af auðlindagjaldi, ekki nema við settum allar auðlindir undir sama hatt, þá er það að sjálfsögðu allt of lítið.

Er hægt að fara einhverjar aðrar leiðir til að ná í einhvers konar skatt eða tekjur af auðlindunum? Eins og ég sagði áðan held ég að best væri að gera það í gegnum skattkerfið með einhverjum hætti og setja þá allar atvinnugreinar sem nýta auðlindir undir sama hatt. Mér finnst engin sanngirni í því að taka sérstakt gjald af einni atvinnugrein.