145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[19:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Er verið að niðurgreiða til útlendinga? Það sem getur gerst í framhaldinu ef menn hætta að aðgreina stuðninginn til innlendrar framleiðslu og þess sem er þá eftir atvikum flutt út er að í raun og veru verður ekki hægt að greina þar á milli og ekki verður annað hægt en viðurkenna það ef að því verður spurt eftir fimm ár, eða tíu ár kannski, hvort það sé þannig að skattfé Íslendinga fari að hluta til í að lækka vöruverð handa útlendingum. Svarið verður já, af því að ekki verður gerður greinarmunur á stuðningnum sem fer til þess hluta framleiðslunnar sem selst á innlendum markaði og hins sem verður fluttur út. Það er ekki gert með beinum stuðningi við hvern framleiddan lítra eða hvert kíló af kjöti og beinum greiðslum vegna ásetnings hvers einasta grips.

Niðurstaðan af úttekt ASÍ var þessi, að aðeins um helmingur af verðlækkun hefði skilað sér til neytenda, og hefur gengið heldur styrkst á þeim tíma en veikst. Jú, jú, auðvitað geta verið einhverjar breytur sem spila þar inn í, en þetta er svona grófa myndin.

Varðandi tollana er mín upplifun og reynsla af því ekki sú að almennt séu ríki útbær á það að fella niður tolla einhliða nema þau fái eitthvað á móti. Það var ekki upplifun mín þegar ég á sínum tíma fylgdist rækilega með og tók þátt í fyrir Íslands hönd Úrúgvæ-umræðulotu GATT-samninganna hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni sem nú heitir. Það var nú heldur betur haldið fast í allt og ríkin ríghéldu í rétt sinn til að mega beita þessum tækjum og hafa það umsamið þar að við megum það. Það er ekki endilega þar með sagt að við notum það. En þetta snýst dálítið um að vera í rétti ef maður telur sig þurfa í alþjóðlegum samningum. Ísland hefur síðan gert fríverslunarsamninga, auðvitað þann langstærsta EES-samninginn, og síðan í gegnum EFTA við mörg ríki. Það eru gagnkvæmir samningar, allt annað mál en þessi hráa nálgun að við eigum bara að henda þessu frá okkur einhliða án þess endilega að vera að hugsa (Forseti hringir.) um hvort við fáum nokkuð í staðinn.