145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[20:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hversu vel hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur lesið álit Davíðs Þórs Björgvinssonar. Mér sýnist Davíð vera í öllum meginatriðum sammála mér í þessu (ÖS: Mér líka.) — já, já, og m.a.s. þótt svo væri, eins og kom kannski fram fyrir nefndinni, að bara væri um að ræða erlenda aðila mundi það jafnframt ganga vegna þess að markmiðið er alveg skýrt, um hvaða eignir er að ræða. Þá væri ekki um óbeina mismunun að ræða, eins og stundum er nefnt í þessum fræðum, í þessu tilviki vegna þess hvers eðlis þessi aðgerð er. Hvorki ég né Davíð Þór Björgvinsson, get ég fullyrt, erum sérstaklega áhyggjufullir yfir þessu.

Mesta vandamálið, og það sem tafði sennilega gerð þessa frumvarps mest, er að menn þurftu að vanda sig varðandi meðalhóf, að ganga ekki lengra en þurfti og passa vel upp á það. Það er ólíkt því sem margir hafa sagt sem hafa tekið þátt í umræðunni, sérstaklega í dag, og lýst yfir á Facebook og haft einhverja skoðun á því að við höfum ekki gengið nógu langt, að þetta væru allt saman hrægammar, keypt þetta á slikk o.s.frv. Við getum ekki leyft okkur að horfa á slík atriði. Við getum aldrei leyft okkur að ganga lengra en nauðsynlegt er þegar takmarkanir eru á eignarrétti. Það er það sem verið er að passa upp á í þessu frumvarpi og kann að vera ástæðan fyrir því að þetta tók lengri tíma, þ.e. hvaða leið átti að fara til að ganga ekki of langt.