145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

Húsavíkurflugvöllur.

520. mál
[15:46]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir að vekja máls á stöðu Húsavíkurflugvallar. Þessi flugvöllur er mikilvægur og hann er einn af þeim flugvöllum í landinu sem teljast verðmæti; það að hann skuli í sjálfu sér vera til. Það er mjög mikilvægt að við getum haldið þeim verðmætum við því að nú eru meðal annars hugmyndir uppi um að nýta smærri flugvelli og smærri vélar til að skapa nýjar vörur í ferðaþjónustu um land allt. Þá þurfum við á þessum flugvöllum að halda.

Ég vil hvetja til þess að farið sé betur yfir samspil breiddar á brautinni og staðsetningar ljósa. Þarna virðumst við vera komin í einhvers konar kerfi þar sem ein ákvörðun leiðir til þess að reglurnar segja nei, sem aftur leiðir til þess að við verðum að taka aðra ákvörðun sem ekki er endilega sú heppilegasta fyrir völlinn.