145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

staða fjölmiðla á Íslandi.

[14:25]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er gífurlega mikilvæg, ekki síst núna þegar við erum á öldum ljósvakans að fjalla um stóra leka, gagnaleka sem snúa að því að koma upp um það hvernig ríkisstjórnir og auðvaldið hefur starfað undanfarin ár, ef ekki árhundruð.

Varðandi Ríkisútvarpið og hvort það eigi að vera á auglýsingamarkaði eða ekki finnst mér í raun skipta meira máli að þannig sé búið um hnútana fyrir Ríkisútvarpið að það geti rekið sjálft sig með sóma. Eins og staðan er í dag er nú ekki fallegt hvernig talað er um Ríkisútvarpið, þegar það virðist vera að tala eitthvað óþægilega til stjórnmálamanna, svona duldar hótanir stundum sem virðast heyrast þaðan. Fyrir utan það náttúrlega að auglýsingar eru ákveðin tegund af upplýsingum. Ríkisútvarpið hefur það að leiðarljósi að koma upplýsingum til allra landsmanna og það má alveg líta þannig á að RÚV eigi líka að vera á auglýsingamarkaði einfaldlega til að koma þeim umræddu upplýsingum sem þar koma fram til allra landsmanna.

Annað sem mig langar að minnast á er öryggi blaðamanna. Eins og staðan er núna er pottur brotinn í mörgu þegar kemur að tjáningarfrelsi á Íslandi. Um daginn, fyrir tveimur til þremur vikum, voru um 20 blaðamenn ákærðir fyrir meiðyrði vegna meints nauðgunarmáls. Þetta er mjög algengt á Íslandi. Það þarf að laga þetta. Við stöndum langt að baki sambærilegum þjóðum þegar kemur að því að vernda blaðamenn gagnvart slíku. Réttarstaða blaðamanna í Þýskalandi er til dæmis mun betri. Það er ástæðan fyrir því að margir blaðamenn fara þangað, einfaldlega til að skrifa mjög umdeildar greinar. Það þarf að tryggja stöðu blaðamanna þannig að þeir lendi ekki í því að vera sóttir til saka fyrir eitthvað sem þeir eru að gera vegna vinnu sinnar.