145. löggjafarþing — 120. fundur,  30. maí 2016.

þjónusta við börn með geðvanda eða fjölþættan vanda.

730. mál
[15:24]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Páli Val Björnssyni að taka þetta mál upp og vil jafnframt þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þau skref sem hann hefur stigið til þess að bæta geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi. Við vitum öll að allt of lítið fé fer í geðheilbrigðismálin innan heilbrigðisútgjaldanna. Því þurfum við að breyta með markvissum hætti.

Ég vil taka fram að hæstv. ráðherra hefur nú þegar lagt fram aukið fé í þennan málaflokk, en við þurfum að halda áfram af festu og vera mjög markviss í þessum efnum. Eins og hér hefur komið fram skiptir snemmtæk íhlutun sköpum og bætir lífsgæði barna og fjölskyldna þeirra. Að láta börn bíða eins og við gerum í dag getur valdið óafturkræfum skaða fyrir þann þroska sem þau geta náð og þau lífsgæði sem þau geta búið við sem einstaklingar í samfélagi okkar. Það er sparnaður að snemmtækri íhlutun og mikilvægt að við leggjum okkur öll fram.