145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

lögreglulög og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

742. mál
[18:05]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við vinstri græn greiðum þessu okkar atkvæði hér. Ég tek undir það og fagna því að nú sé loksins að hilla undir nám á háskólastigi hjá lögreglunni. Ég vil halda því til haga, við lokaafgreiðslu málsins, að ég hef áhyggjur af fjármögnun og kostnaði og tel kostnaðarmatið ekki nægjanlegt, að ekki sé veitt nóg fé til þessa nýja náms. Ég hef einnig haft efasemdir um að starfsöryggi þeirra sem nú eru við Lögregluskóla ríkisins sé tryggt eins og gert hefur verið þegar verið er að breyta skipan í tilteknum embættum. Þegar sérstakur saksóknari varð héraðssaksóknari fengu starfsmenn forgang til vinnu. Það var ekki látið ganga yfir hér, það þykir mér miður. En ég er ánægð með að námið sé að fara á háskólastig og tel það vera til bóta.