145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl.

791. mál
[20:15]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það voru nú svolítið skrýtin lokaorðin hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni þar sem hann þakkar fyrir að þetta mál komist á dagskrá. Ég held að frekar ætti að bera fram þakkir til þeirra þingmanna sem bíða hér og voru næstir á dagskrá í stað þess að frekjast hér fram fyrir alla með það, því að ef allt hefði verið með felldu hefði þetta mál ekki komist á dagskrá þingsins fyrr en í fyrramálið. En sumir hafa meiri forgang hér í þinginu en aðrir.

Þess ber að geta að það mál sem er hér til umræðu er á þskj. 1367. Sambærilegt mál sem ég flutti snemma í nóvember er á þskj. 392. Það munar því tæpum 1.000 málsnúmerum á þessum tveimur málum sem ég vildi að yrðu rædd saman undir þessum dagskrárlið, þ.e. rannsókn á fyrri og seinni einkavæðingu bankanna. Við því var ekki orðið.

Ég fór til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þegar þetta mál kom þar upp og bar fyrst fram þá ósk að þessum tveimur málum yrði rennt saman í eitt þingskjal. Það var ekki samþykkt. Þar óskaði ég eftir því að þessi mál yrðu rædd saman. Hver er raunin? Jú, málið var tekið út úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd síðastliðinn fimmtudag og það er þriðjudagur í dag. Ég man bara ekki eftir svo fljótri afgreiðslu á einu máli, virðulegi forseti, og kem ég því hér til skila að mér finnast vinnubrögðin afar undarleg sem snúa að þessu máli.

Þá langar mig til að spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson: Hvað er áætlað að fáist út úr þessu máli? Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er hvorki búin að fá það á hreint né fá svör við því hver ber upp kvörtunina eða hver telur sig hafa eitthvað nýtt fram að færa í málinu. Í öðru lagi: Hvert er málið sem rannsaka á? Hvernig er hægt að rannsaka mál ef enginn getur sagt um hvað málið snýst?