145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[21:23]
Horfa

Frsm. fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Ég ætla bara að þakka hv. þingmönnum fyrir að hafa tekið þátt í henni. Mér fannst umræðan vera málefnaleg og margt ágætt kom fram. Ég vil ítreka það sem áður hefur komið fram að við nálguðumst þetta með þeim hætti að fá allar gagnrýnisraddir inn í nefndina. Allir þeir aðilar sem beðið var um að kæmu fyrir hv. nefnd komu, alveg sama hverjir þeir voru, og þá var ekki síst verið að hlusta á þá sem hafa reynslu, en komu ekki frá opinberum stofnunum.

Það er rétt sem kom fram, ný ferja mun ekki leysa vanda Landeyjahafnar, það er annað mál sem við munum ekki leysa hér eins og kom fram hjá hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni. Þó ég sé sammála honum í því, þá spyr ég mig að því þegar hann talar um að það verði ekki þægilegt að fara í brælu í nýrri ferju. Ég kannast ekki við það, virðulegi forseti, að það sé sérstaklega þægilegt að fara í brælu í gamla Herjólfi. Ég held, og tala fyrir hönd landkrabba, að það sé aldrei þægilegt að fara í skip í brælu.

Virðulegi forseti. Við setjum heiðarlega fram það sem við teljum vera óvissu í, við ráðum ekki við alla hluti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir málefnalega og góða ræðu og ætla ekki að fara í alla þætti þess sem hann fór í, en vil þó ítreka með gamla Herjólf að ég held að það sé heilbrigð skynsemi að hinkra aðeins með hann. Það er ekki dýrt að vera með rekstur á skipi sem liggur við bryggju. Við vitum eðli máls samkvæmt ekki fullkomlega frekar en í öðrum málum sem við samþykkjum hér hvernig þróunin verður.

En ég vil að lokum segja þetta: Mér finnst vera sóknarfæri í Vestmannaeyjum þegar kemur að ferðaþjónustu. Mér finnst 300 þús. farþegar ekki vera mikið. Ég vonast til þess að við sjáum fleira fólk fara til þessa ágæta staðar í nánustu framtíð.