145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[21:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld.

Nefndin fjallaði ítarlega um þetta mál og fékk til fundar við sig fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, KPMG, Isavia, Fríhöfninni, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Félagi atvinnurekenda, Alþýðusambandi Íslands, Viðskiptaráði Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Meginefni frumvarpsins er tvennt. Annars vegar er lagt til að almennt tryggingagjald verði lækkað um 0,5 prósentustig frá 1. júlí 2016 sem þýðir að tekjur ríkissjóðs frá gildistöku til loka árs mun lækka um 3 milljarða eða 6 milljarða árlega. Í öðru lagi er lagt til að fellt verði brott óvirkt ákvæði skattalaga sem kveður á um að sé verðbréfa- eða fjárfestingarsjóði breytt í hlutafélag skuli það ekki hafa í för með sér skattalegar afleiðingar. Þá er lagt til að fallið verði frá áformum um að heimila hjónum og sambýlisfólki samsköttun milli skattþrepa frá 1. janúar 2017. Einnig er lagt til að tekinn verði af allur vafi um skyldu rekstraraðila til þess að leggja fram með skattframtali sínu ársreikning sem felur í sér rekstrar- og efnahagsreikning ásamt sundurliðunum og skýringum. Lagðar eru til breytingar á virðisaukaskattslögum vegna lagaskila og hugsanlegrar afturvirkni breytingar sem gerð var á undanþágu fólksflutninga frá virðisaukaskatti. Þá er lagt til að bætt verði við ákvæði virðisaukaskattslaga tollskrárnúmerum sem ná yfir bjór til að styrkja og skýra lagagrundvöll. Einnig er í frumvarpinu lagt til að gjalddagi ógreidds fjársýsluskatts og fjársýsluskatts utan staðgreiðslu verði 1. nóvember ár hvert og eindagi mánuði síðar. Þá er lagt til að kveðið verði skýrar á um afmörkun og aðgengi að komuverslunum hvað sölu á vörum varðar. Loks er lögð til einföldun á viðmiðum um gjaldfrjálsan innflutning ferðamanna, skipverja og flugverja á áfengi.

Eins og áður kom fram fékk nefndin til sín marga gesti og umsagnir þar sem gerðar voru athugasemdir sem nefndin fór yfir á fundum sínum með fulltrúum umsagnaraðila og ráðuneytis. Í ljósi þeirra umsagna og vinnu nefndarinnar eru lagðar til nokkrar breytingar á frumvarpinu.

Þar ber fyrst að nefna breytingu hvað varðar samsköttun hjóna og sambúðarfólks. Meiri hluti nefndarinnar komst að sömu niðurstöðu og hann gerði áður, sem kom fram í nefndaráliti hans við mál á þskj. 2 sem afgreitt var fyrr á 145. löggjafarþingi, að heimild um samsköttun hjóna yrði ekki felld á brott, enda telur meiri hluti nefndarinnar ekki hafa komið fram nein sjónarmið eða rökstuðningur hvað þetta varðar sem breytir afstöðu meiri hlutans. Afstaða meiri hlutans er sú að mikilvægt sé að heimildin haldist inni og telur hann að þau sjónarmið sem bent hafi verið á vegi ekki eins þungt og þeir hagsmunir einstaklinga sem þarna eiga hlut að máli. Nefndin telur rétt að áfram verði heimilt að flytja ófyllt skattþrep þess hjóna sem lægri hefur tekjurnar til þess sem hærri hefur tekjurnar og leggur því til að 3. og 5. gr. frumvarpsins falli niður.

Síðan eru aðrar minni háttar breytingar sem eru meira tæknilegs eðlis en efnislegar. Þar má fyrst nefna sölu áfengis í tollfrjálsum verslunum. Í lögum hefur það verið þannig að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur ein haft einkaleyfi á smásölu áfengis og til að taka af allan vafa um að þessum tollfrjálsu verslunum sé einnig heimilt að gera það er rétt að hafa pósitíft ákvæði um það og leggur nefndin til breytingartillögu í þeim tilgangi.

Svo er breyting um skilgreiningu á öli, síderum og gosblöndum, sem rakin er í nefndarálitinu, og um skattskyldusvið ferðaþjónustuaðila. Ég vísa í nefndarálit meiri hlutans hvað það varðar.

Rétt er að taka fram að í tengslum við tillögu um breytingu á lögum um tryggingagjald, samanber 1. gr. frumvarpsins, telur meiri hlutinn mikilvægt að árétta að lækkun tryggingagjalds hafi ekki áhrif á fjárframlög til Fæðingarorlofssjóðs eða boðuð áform um breytingar á úthlutunarreglum sjóðsins til hagsbóta fyrir bótaþega.

Að lokum eru lagðar til tvær breytingar á gildistökuákvæði. Felld er brott 4. mgr. um gildistöku 3. og 5. gr. og lagt er til að 1. gr. um lækkun tryggingagjalds öðlist gildi og komi til framkvæmda 1. júlí 2017.

Hv. þingmenn Vilhjálmur Bjarnason og Sigríður Á. Andersen rita undir þetta álit samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. um starfsreglur fastanefnda þingsins.

Í ljósi framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Í meiri hlutanum eru hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Brynjar Níelsson, Willum Þór Þórsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Vilhjálmur Bjarnason og Sigríður Á. Andersen.