145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

mansal og undirboð á vinnumarkaði.

[11:03]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er gott að heyra að félagsmálaráðherra styður það ekki að Félagsmálaskóli alþýðu verði lagður niður eins og tveir forustumenn í stjórnarliðinu hafa engu að síður lagt til. Það bendir ekki til þess að einhugur sé í stjórnarliðinu um það hvaða afstöðu eigi að taka til þess fyrirbyggjandi þáttar sem lýtur að fræðslu og upplýsingu um þessi málefni, en allir sérfræðingar eru sammála um að fræðsla sé einmitt grundvallaratriði varðandi það að koma auga á einkenni vinnumansals og geta stemmt stigu við því úti á vettvangi, á vinnustöðunum. Þá mætti kannski spyrja í beinu framhaldi — úr því að þetta er hluti af námsefni Félagsmálaskóla alþýðu og ráðherrann er mér sammála um að sá skóli eigi hlutverki að gegna, m.a. á þessu sviði — (Forseti hringir.) hvort ráðherrann hyggist þá ekki styrkja þann skóla og beita sér fyrir því að efla hann frekar en að höggva stoðir undan honum eins og lagt er til.