145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[11:36]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það sem meiri hluti hv. efnahags- og viðskiptanefndar hefur lagt til er að falla frá þeirri breytingu sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lagði til á samsköttun sem gerir að verkum í fyrsta lagi að 3 milljarðar skila sér ekki í ríkissjóð sem er samsvarandi upphæð og á að lækka tryggingagjaldið um og að sú breyting gagnast fyrst og fremst samkvæmt minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis tekjuhæstu heimilunum í landinu. Ég verð að segja að mér finnst það ábyrgðarhluti hjá meiri hluta nefndarinnar að leggja þessa breytingu til. Þess vegna munum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggjast gegn þessari breytingu meiri hlutans og sitja hjá við málið í heild sinni, því að þótt við styðjum lækkun tryggingagjaldsins þá teljum við það mikinn ábyrgðarhluta að hleypa þeim áformum hreinlega í uppnám með þessari tillögu. Þess vegna munum við greiða atkvæði gegn henni þegar svona liggur í málinu. Við teljum þetta ekki eðlilega forgangsröðun á ríkisfé.