145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[19:18]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að á Alþingi hefur náðst sátt um ákveðnar grundvallarbreytingar sem lúta að því að setja þak á greiðsluþátttöku sjúklinga, sem er gríðarlegt þjóðþrifamál, og að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað og taka upp tilvísunarkerfi. Ég held að það skipti mjög miklu sem gerðist á lokametrunum þar sem ákveðið var að setja aukið fjármagn í verkefnið, annars vegar til að efla heilsugæsluna og hins vegar til að lækka þakið. Það á auðvitað að vera forgangsmál okkar að tekjulágt fólk þurfi ekki að fresta því að sækja sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Ég vonast svo sannarlega til þess að þessar breytingar verði mikilvægur áfangi á þeirri leið. Það er ánægjulegt að upplifa það vinnulag sem hér hefur verið viðhaft og þá sátt sem hefur náðst um málið.