145. löggjafarþing — 129. fundur,  8. júní 2016.

kjaramál Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

815. mál
[15:11]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra flugumferðarstjóra gegn Isavia. Sem kunnugt er hófst yfirvinnubann Félags íslenskra flugumferðarstjóra gegn Isavia þann 6. apríl sl. og þjálfunarbann þann 6. maí. Aðgerðirnar fela í sér ótímabundið yfirvinnubann og bann við að sinna verklegri þjálfun nemenda. Kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins, er fara með samningsumboð fyrir hönd Isavia, var vísað til ríkissáttasemjara þann 23. febrúar sl. Lítið sem ekkert hefur áunnist í þeim viðræðum og samningar ekki í augsýn þrátt fyrir aðkomu ríkissáttasemjara og þá staðreynd að yfir 20 samningafundir hafa verið haldnir.

Í ljósi þess að samningaviðræður deiluaðila hafa ekki skilað árangri og engar líkur eru á lausn í bráð er nauðsynlegt fyrir ríkisvaldið að höggva á hnútinn. Mikilvægir almannahagsmunir eru í húfi þar sem flugsamgöngur eru að sönnu lífæð til landsins sem almenningur og atvinnulíf verða að geta treyst á og má undir engum kringumstæðum rjúfa. Þær truflanir og óvissa sem aðgerðir þessar hafa þegar valdið valda verulegu tjóni og er mikil hætta á að það verði miklum mun meira ef ekki verður gripið inn í.

Í fyrsta lagi er ríkinu ómögulegt að sinna lögbundnum skyldum sínum og þjónustu, þar með talið alþjóðlegum skuldbindingum og tryggja hagkvæma og örugga flugumferðarþjónustu. Í öðru lagi eru heildarhagsmunir heillar atvinnugreinar undir, þ.e. ferðaþjónustunnar. Í þriðja lagi er mikilvægt að efnahagslegum stöðugleika verði ekki stefnt í voða með ófyrirsjáanlegum afleiðingum á vinnumarkaði.

Hæstv. forseti. Aðgerðirnar hafa haft áhrif á innanlandsflug, flug til og frá landinu og allt flug um íslenskt loftrými. Ísland hefur skuldbundið sig til að sinna flugleiðsöguþjónustu á Norður-Atlantshafi og undirgengist að tryggja að þjónusta sé rekin á öruggan, skilvirkan og hagkvæman hátt. Ljóst er að yfirstandandi aðgerðir koma í veg fyrir að íslensk stjórnvöld geti staðið við þessar skuldbindingar sem getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir starfsemina hér á landi, sem er gjaldeyrisskapandi og stuðlar að bættri samkeppnisstöðu Íslands á sviði flugsamgangna.

Eftir því sem þessar aðgerðir dragast á langinn mun röskun af þeirra völdum auka hættu á að öryggi sé ógnað. Mikilvægt er að tryggja öryggi og stöðugleika í þessari þjónustu og getur ríkisvaldið ekki látið deilur aðila hafa áhrif á þá mikilvægu þætti. Þá hafa aðgerðirnar haft skaðleg áhrif á allt yfirflug flugvéla sem ekki hafa nokkra viðkomu hér á landi og íslensk stjórnvöld bera ábyrgð á að tryggja þjónustu við.

Mikilvægi flugsamgangna er meira hér á landi en í flestum öðrum ríkjum í ljósi þess að flug er eini raunhæfi samgöngumátinn til og frá landinu. Nú þegar hafa þvingunaraðgerðir Félags íslenskra flugumferðarstjóra staðið yfir í meira en tvo mánuði og ljóst er að aðilar munu ekki ná saman í bráð.

Yfirvinnubannið leiðir til þess að ekki er hægt að manna vaktir ef forföll verða vegna veikinda eða annarra þátta og eru afleiðingar þess að vísa þarf flugi úr íslenska flugstjórnarsvæðinu, seinka komum og brottförum á Keflavíkurflugvelli og mjög hægist á hreyfingum í aðflugi og komuflugi. Þannig hafa aðgerðirnar til að mynda nú þegar haft áhrif á 1.200 flugferðir Icelandair og raskað ferðaskipulagi 200 þús. farþega. Þá er áætlaður kostnaður erlendra flugfélaga sem hingað koma, og fljúga um íslenskt loftrými án viðkomu hér á landi, á þriðja milljarð króna vegna óhagstæðari flugleiða. Þá er ekki meðtalið það tjón sem þau verða fyrir vegna röskunar á áætlun af þeim sökum. Þjálfunarbann félagsins hefur leitt til þess að nýliðun í stéttinni mun tefjast sem nemur þeim tíma sem aðgerðirnar standa yfir og álag á starfsfólk því aukast vegna þess.

Nú er ferðamannatíminn í hámarki, en ferðaþjónustan reiðir sig á öruggar og greiðar samgöngur til landsins. Í sumar er þriðja sumarið sem röskun er á flugsamgöngum vegna verkfallsaðgerða. Samkvæmt upplýsingum frá samtökum aðila í ferðaþjónustu er þetta ástand farið að hafa neikvæð áhrif á ferðaheildsala sem selja ferðir til Íslands. Þá hefur röskun á flugi leitt til þess að ferðamenn snúa til baka til þeirra hótela sem þeir gistu á og koma oft að lokuðum dyrum þar sem hótelin eru á þessum tíma fullbókuð. Á háannatímanum er fullbókað og hætta er á að þessi vandræði muni enn aukast.

Að þessu virtu er ljóst að ríkir almannahagsmunir eru fyrir því að fresta verkfallsaðgerðum Félags íslenskra flugumferðarstjóra gegn Isavia. Inngrip Alþingis er því metið nauðsynlegt til að tryggja þá hagsmuni sem hér eru undir og til að höggva á þann hnút sem er til staðar í viðræðum aðila. Samtök atvinnulífsins og BSRB eru aðilar að svokölluðu SALEK-rammasamkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins. Samkvæmt því skuldbinda Samtök atvinnulífsins sig til að framfylgja þeirri launastefnu sem þar er tilgreind. Hafa samningstilboð Samtaka atvinnulífsins því miðast við þann tiltekna ramma. Ljóst er að stéttarfélög munu bregðast við og krefjast launahækkana til samræmis ef Samtök atvinnulífsins færu út fyrir ramma SALEK-samkomulagsins, en það mundi ógna þeim efnahagslega stöðugleika sem áunnist hefur á undanförnum árum með víxlhækkunum launa og verðlags.

Hæstv. forseti. Í þessu frumvarpi er farin sú leið að gefa viðsemjendum færi á að leysa úr ágreiningi sínum fyrir 24. júní næstkomandi ella verði kjaradeilan lögð í gerðardóm. Gerðardómurinn skal skipaður þremur fulltrúum, einum tilnefndum af Hæstarétti Íslands, einum af Félagi íslenskra flugumferðarstjóra og einum af Samtökum atvinnulífsins. Gerðardómur skal í ákvörðun sinni hafa til hliðsjónar kjarasamninga, sem gerðir hafa verið á almennum vinnumarkaði á undanförnum missirum að því leyti sem við á, almenna þróun kjaramála og efnahagslegan stöðugleika. Til að stuðla að aukinni sátt um ákvörðun gerðardóms er í frumvarpinu farin sú leið að fulltrúar launþega og vinnuveitenda tilnefni sinn fulltrúa hvor í gerðardóminn. Jafnframt er gerð rík krafa til hlutleysis þeirra og sérþekkingar. Vona ég að þetta leiði til þess að hægt verði að ná sátt um niðurstöðu gerðardóms, ef til hans kemur, og hægt sé að skapa frið um starfsumhverfi þessarar stéttar.

Hæstv. forseti. Ég hef nú rakið tilefni þessa frumvarps. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til 2. umr. og þóknanlegrar meðferðar hv. umhverfis- og samgöngunefndar.