145. löggjafarþing — 130. fundur,  8. júní 2016.

kjaramál Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

815. mál
[21:15]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða löggjöf sem er stillt upp gegn verkfallsréttinum. Hér er um að ræða löggjöf sem er illa rökstudd þar sem ekki hafa verið færð rök fyrir því að ríkir almannahagsmunir séu í húfi eða efnahagsleg vá fyrir dyrum. Hér er um að ræða ömurlega þróun í samskiptum stjórnvalda við vinnumarkaðinn, þróun sem er gegn frjálsum samningsrétti á vinnumarkaði. Það verður að fjalla um þessa þætti heildstætt ásamt því hvernig samfélag við viljum byggja með þeim félagslegu þáttum sem verkalýðshreyfingin hefur gert kröfu um að séu alltaf undir þegar við ræðum kjaramál.

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs greiðir atkvæði gegn þessu máli.