145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

endurskoðun stjórnarskrárinnar.

[15:33]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hvatninguna sem kemur fram hjá hv. þingmanni um að koma með málið inn til þingsins og tek undir með honum um mikilvægi þess að leyfa þinginu að takast á við þetta verkefni. Ég held miðað við hvað vinnan hefur verið vönduð, byggð á vinnu sem auðvitað var unnin á undan, hvort sem var í nefndum á fyrri kjörtímabilum eða vinnu stjórnlagaráðs eða önnur sú vinna sem hefur verið unnin, að það liggi mikið verk hér að baki, vönduð vinna, sem ég held að væri æskilegt að koma hingað inn.

Varðandi þingferilinn hefur það verið skoðun mín og við ræddum það á upplýsingafundi stjórnarandstöðunnar og forustumanna ríkisstjórnarinnar hvernig við sæjum fyrir okkur að hægt væri að lengja þinghaldið og ganga til kosninga síðar í haust þegar við höfum lokið störfum, þá tel ég nægan tíma til þess að takast á við þetta verkefni og tek hvatninguna mjög jákvætt til mín um að koma með málið sem fyrst til þings.