145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

aðgerðir í húsnæðismálum.

[15:47]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að fara í málefnalega rökræðu í þinginu þegar menn vilja ekki viðurkenna þær staðreyndir sem fyrir hafa legið. Leiðréttingin fór að stærstum hluta til ungs fólks og þeirra sem minna áttu, akkúrat öfugt við aðgerðir fyrrverandi ríkisstjórnar, sem mér leiðist að fara að tala um, 110%-leiðina sem var ekkert þak á og fór einmitt til þeirra sem höfðu skuldsett sig mest og höfðu mest á milli handanna og dugði þó engan veginn til að koma til móts við þann hóp, hvað þá hinn hópinn sem var skilinn eftir en leiðréttingin tók á. Við erum síðan í þessum aðgerðum í dag að koma fram með tillögur, úrræði fyrir ungt fólk, að auðvelda því stórlega að eignast þak yfir höfuðið með því að nýta séreignarsparnað án þess að skerða möguleika þess þegar það kemst á ellilaun á að vera með yfir 100%, reyndar 113%, af tekjum sínum eftir að það hættir. Það nýtir sem sagt hluta af séreignarsparnaði sínum í upphafi til þess að lækka greiðslubyrði og lækka skuldsetningu og auka eigið fé og flýta fyrir því (Forseti hringir.) að það eignist húsnæði og sé betur í stakk búið til að takast á við hugsanleg verðbólguskot framtíðarinnar.