145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[16:08]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem um ræðir er þessi spurning: Er greiðslubyrðin að léttast hjá stórum hluta námsmanna? Svarið er já. Þar af leiðandi held ég að áhyggjurnar sem hv. þingmaður hefur af tekjutengingunni séu ekki réttmætar, þ.e. ef greiðslubyrðin er léttari en áður. Ég er ekki aðeins að tala um samanburðinn við það sem áður var heldur það að við erum að búa til kerfi sem dregur úr greiðslubyrðinni hjá meginþorra námsmanna. Þó að tekjutengingin hverfi hef ég ekki þær áhyggjur sem hv. þingmaður hefur einfaldlega af því að þegar ég skoða samsetningu teknanna núna og ef við veltum fyrir okkur hvernig þær munu þróast í framtíðinni þá er þessi kerfisbreyting ekki til þess fallin að draga úr því að fólk velji sér það nám sem það hefur áhuga á. Miðað við það fyrirkomulag sem við höfum í dag þá hefur það meira svigrúm. Ég hef ekki áhyggjur af því að þetta gerist.

Aftur að framtíðinni. Það er rétt sem hv. þingmaður segir varðandi þetta gamla hugtak sem við notuðum í gamla daga þar sem sagt var af svolítilli fyrirlitningu að menn væru eilífðarstúdentar af því að þeir kláruðu ekki nám. Öll sú hugsun er orðin gamaldags og úrelt hvað það varðar að við klárum ekki nám í eitt skipti fyrir öll. Við þurfum að endurmennta okkur o.s.frv. Það sem hér um ræðir er námslánakerfið og við horfum til þess hvernig við stöndum að þessari tegund af stuðningi. Alls konar menntun á sér stað í samfélaginu, eins og hv. þingmaður þekkir, t.d. við Endurmenntun Háskóla Íslands, alls konar námskeið, alls konar þróun innan fyrirtækja, í háskólastofnunum og sérskólum o.s.frv. Það er alveg gríðarleg gróska í þeirri starfsemi allri.

Við berum saman þann árafjölda sem við ætlum að verja til þess að styðja nemendur okkar með námslánakerfi við það sem önnur lönd gera, t.d. hin norrænu ríkin og Evrópulöndin, og það er það sem við erum að ræða hér. En ég er alveg sammála hv. þingmanni og ég er tilbúinn til að eiga orðastað við hann um það hvenær sem er hvaða breytingar við þurfum að gera á íslensku menntakerfi til þess að aðlagast (Forseti hringir.) akkúrat þeim þáttum sem hann nefnir. Það er það sem stendur yfir. Það snýr ekki aðeins (Forseti hringir.) að lengri námstíma á framhaldsskólastigi heldur svo fjöldamörgu öðru (Forseti hringir.) sem skiptir miklu máli.