145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[18:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get haldið áfram að ræða forvarnirnar. Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar sýna að jafningjarnir skipta hvað mestu máli og sömuleiðis heilbrigðar tómstundir þegar kemur að því að halda fólki frá fíkniefnum og áfengi. Ég held að við eigum að nota sömu aðferðir þegar kemur að yngra fólkinu. Það er í rauninni alveg óskiljanlegt að við séum enn þá eftir lengingu skóladagsins og skólaársins með jafn margar hreyfistundir og þegar við settum grunnskólann eða barnaskólann af stað á sínum tíma. En við getum rætt það við betra tækifæri.

Ég vil spyrja hv. þingmann um tvennt í tengslum við tekjuöflunina. Nú hefur verið nokkur umræða um það þegar aflaheimildir hafa farið úr viðkomandi sveitarfélögum. Gott dæmi núna er Þorlákshöfn, það hefur verið mikil umræða um það. Nú er óhjákvæmilegt ef við förum þessa útboðsleið að það gerist mjög reglulega, hjá því verður ekki komist. Hefur hv. þingmaður einhverjar áhyggjur af því? Það sem er að gerast t.d. í Færeyjum er að þar eru mjög sterkir aðilar sem kaupa mest af þessu, þótt þeir hafi í rauninni boðið út mjög lítið, en það breytir því ekki að þangað hlýtur þetta að leiða, sérstaklega ef þetta verður almenn leið.

Síðan varðandi raforkuverðið og kannski frekar sæstrenginn sem er að mörgu leyti, ég skal alveg viðurkenna það, spennandi hugmynd. Það er alveg sama hvernig við nálgumst þetta, við munum þurfa að virkja meira. Við getum deilt um hversu mikið, það þarf auðvitað að skoða það, en við komumst ekki hjá því að virkja meira ef við ætlum að fara í það verkefni. Ég verð að viðurkenna að ég er orðinn mjög hófsamur þegar kemur að auknum virkjunum. (Forseti hringir.) Ég held að við eigum að fara mjög varlega í þær, virðulegi forseti. En ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún hafi ekki áhyggjur af því.