145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[17:05]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Það er rétt, virðulegi forseti, að taka undir orð hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur um að það er réttast að ljúka þessu þingi núna og fara að undirbúa kosningarnar í landinu sem eiga að vera 29. október vegna þess að annar stjórnarflokkurinn tekur ekki þátt í þingstörfum, mætir illa í þingsal, tekur ekki þátt í þessu stóra máli sem hér er lagt fram og gefið í skyn að þau hafi ekkert til málanna að leggja af því að málinu verði hugsanlega breytt í þingnefndinni.

Hverjir ætla að breyta málinu í þingnefndinni? Málið er nefnilega að það er ekki hægt að afnema verðtrygginguna í landinu á meðan við erum með íslenska krónu. Menn verða bara að átta sig á því. Þess vegna geta framsóknarmenn ekki uppfyllt þetta (Forseti hringir.) loforð sem þeir gáfu svo hávært fyrir kosningar.