145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir að hér ættum við að ræða samgönguáætlun á hverjum degi, mjög þarft mál. Ég er mikill talsmaður þess og vík mér ekki undan þeirri umræðu.

Mig langaði að gera að umtalsefni að ríki og sveitarfélög eru þau sem stýra að langmestu leyti verði og uppbyggingarmöguleikum á húsnæði. Stjórnvöld hafa stigið mörg jákvæð og góð skref til að auðvelda ungu fólki að eignast sína fyrstu íbúð en með breytingum á reglugerð hefur val fólks um fyrirkomulag íbúða aukist og dregið hefur úr kröfum sem þjónuðu ekki skynsamlegum tilgangi. Nú síðast kynnti ríkisstjórnin leiðir sem hvetja fólk til að spara og bjóða fólki upp á val um hvort það nýtir sparnað sinn skattfrjálst til að koma sér þaki yfir höfuðið eða geymir hann til efri áranna. Mögulega er hægt að ganga enn lengra í þessum efnum en ég spyr: Er ekki boltinn kominn til sveitarfélaganna núna? Er ekki rétt að þau sveitarfélög sem ætti að vera hvað hagkvæmast að reka vegna stærðar og staðsetningar fari að draga úr lóðaverði, lágmarka umsýslukostnað í stjórnsýslunni vegna nýframkvæmda og tryggja nægt lóðaframboð?

Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins eru a.m.k. til sveitarfélög í góðum rekstri án þess að selja lóðirnar á uppsprengdu verði og þau rukka ekki himinháar upphæðir fyrir að taka á móti umsóknum um lóðir og byggingarleyfi. Ég hvet sveitarfélögin til að koma með ríkisvaldinu í þann leiðangur að aðstoða framtíðarútsvarsgreiðendur við að koma sér þaki yfir höfuðið.


Efnisorð er vísa í ræðuna