145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[22:14]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins vegna umfjöllunar hv. þingmanns um tollasamninginn og samhengið við búvörusamninginn þá deili ég þeirri skoðun með honum að garðyrkjan er mjög gott dæmi um hvernig gott væri að sjá starfsumhverfið í heild sinni, þ.e. opinberi stuðningurinn er eins lítið samkeppnishamlandi og mögulegt er. Hann kemur bara beint inn og menn eru frjálsir að því að framleiða, frjálsir að því að keppa og þeir geta selt innlent grænmeti við dýrara verði en innflutt því að ekkert er hamlað á móti innflutningi, menn mega flytja inn. Það er auðvitað það sem ég held að hljóti að vera svolítil lexía fyrir okkur. Ég vil styðja við íslenskan landbúnað, en ég vil líka að hann hafi bæði gæða- og verðaðhald af innflutningi. Ég hef áhyggjur af því að nefndin skelli skollaeyrum við athugasemdum frá hagsmunaaðilum, skelli skollaeyrum við dómum Hæstaréttar um ágallann á núverandi innflutningstollakerfi.

Við í Samfylkingunni munum leggja til breytingartillögu um að öllum kvótum verði úthlutað með hlutkesti. Ástæðan er sú að vegna verðsamkeppninnar um kvótana þá fá íslenskir neytendur ekki ávinninginn af verðsamkeppninni. Í samningunum sem Ísland hefur gerst aðili að undanfarna áratugi um alþjóðlegt átak í landbúnaðarvöruviðskiptum er gert ráð fyrir að þessir tollkvótar eigi að gera tvennt; tryggja gæðasamkeppni og verðsamkeppni og þar með vera eins og gluggi út í umheiminn. En það er búið að aftengja það hér með uppboðskerfinu á kvótunum. Er hv. þingmaður ekki sammála mér um mikilvægi þess að við reynum að feta þessa leið og hafa hlutkesti um kvótann þannig að það verði raunveruleg verðsamkeppni, sem er þá mótvægi við stuðninginn sem veittur er á móti í gegnum búvörusamninginn?