145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[22:54]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég gleymdi að geta þess og verð hreinskilinn við hv. þm. Þorstein Sæmundsson, en hv. þingmaður er eiginlega að spyrja mig hins sama og hann. Já, ég neita því ekki að það er svolítill blær af Evrópusambandinu á því sem ég er að segja. Þetta er ekkert víðs fjarri þeirri stefnu sem menn hafa rekið þar. Ég tel að það sé farsælla og það væri þangað sem við ættum að stefna, að nota fé sem við teljum að við séum að beita til þess að halda landi í byggð, sérstaklega á þeim svæðum sem eru hvað gisnust, og greiða mönnum fyrir að búa þar. Þeir ráða hvað þeir gera þar. Þeir eiga að halda landinu í byggð og þeir eiga að vernda landið og halda því við. Ég lít á landbúnað sem part af innviðum landsins. Hann gerir mér t.d. kleift að ferðast um það vegna þess að ég gisti hjá bændum. En á vorum tímum er hann orðinn ómetanleg stoð fyrir annan dráttarklár, miklu öflugri hvað gjaldeyrisöflun varðar, sem er ferðaþjónustan.