145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er enn langt í land að hægt að segja að búið sé að jafna orkuverð í landinu þótt bæði hæstv. iðnaðarráðherra og fleiri þingmenn eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hafi fullyrt að ríkisstjórnin sé búin að jafna orkuverð í landinu. Það kom fram að í síðasta fjárlagafrumvarp vantar í það minnsta 400 milljónir upp á að jafna dreifingu rafmagns og dreifingu á flutningi á orku þar sem ekki er búið við jarðvarmaveitu. Það getur verið allt að þrefaldur munur á kostnaði við að kynda og greiða fyrir rafmagn á heimilum hér á höfuðborgarsvæðinu og víða úti um land. Ég fékk upplýsingar um það nýlega að í Ólafsvík hefðu orkureikningar hækkað, sem áttu þvert á móti að lækka vegna þess að það var samþykkt frumvarp um jöfnun innbyrðis meðal dreifiveitna og átti það að stuðla að lækkun þar sem menn eru með rafmagnskyndingar og fjarvarmaveitur. Það fylgdi því líka að það gæti hækkað á sumum stöðum, sem hefur komið í ljós að hefur gerst. Ég tel mjög brýnt að það sé greint nákvæmlega hvernig niðurstaðan hefur verið þegar upp er staðið, hvort virkilega séu heimili þar sem mikill orkukostnaður var fyrir sem standa frammi fyrir því að hann hækki enn frekar þegar jöfnun innbyrðis í kerfinu átti að vera til góða.

Það var líka eitt sem við vinstri græn gagnrýndum harðlega og það var að inni í þessari jöfnun voru ekki stóriðjufyrirtækin eða stórnotendur, eingöngu þeir sem voru innan dreifiveitna. Ég tel mjög mikilvægt að jafna aðstöðumun fólks úti um land hvað varðar orkukostnað, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, háhraðatengingu (Forseti hringir.) og menntun, því að þetta er gífurlegt byggðamál og skiptir miklu máli.


Efnisorð er vísa í ræðuna