145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna.

851. mál
[17:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir greinargóða skýrslu og mikla yfirferð á niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar sjálfrar um orsakir og afleiðingar eða tilefni falls sparisjóðanna. Ég vil taka strax fram hvað mig sjálfan varðar, og þó auðvitað fyrst og fremst sem fyrrverandi fjármálaráðherra, þá uni ég mjög vel því sem að mér snýr í þessu, bæði því sem rannsóknarnefndin setur á blað, þar er allt rétt eftir mér haft, sem og niðurstöðum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í þessu skjali. Gæti sagt út af fyrir sig ýmislegt um það sem einstakir ræðumenn hafa látið frá sér fara, en niðurstöðurnar eins og þær birtast hér á prenti tel ég vandaðar og ekki ósanngjarnar á einn eða neinn hátt. Ég lagði mig að sjálfsögðu fram um að upplýsa rannsóknarnefndina eins vel ég gat og draga upp þá réttu mynd af þeim hlutum sem ég þekkti til, dró ekki undan þegar í hlut átti ákveðnar pólitískar áherslur. Þess er auðvitað getið í skýrslunni og margir hafa vitnað til þess með sama hætti og ég reyndi eins og aðrir fyrrverandi ráðherrar að svara með skýrum hætti þegar við komum á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Ég tel að með þessari miklu vinnu og rækilegri yfirferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem nú liggur hér fyrir skráð sé komin nokkuð skýr mynd á þetta mál og af því megi síðan draga lærdóma. Það er út af fyrir sig ljóst og það er ágætlega rakið að vissulega verða stjórnvöld, bæði framkvæmdarvald og löggjafarvald og sparisjóðirnir sjálfir að líta dálítið í eigin barm gagnvart þeirri þróun sem hefst á miðjum 9. áratug, eins og framsögumaður gat réttilega um, og endar má segja með falli sparisjóðanna, nánast allra, á árunum frá lokum 2008 og alveg inn á árið 2015 ef ég man rétt, því að þá renna síðustu sparisjóðirnir sem ekki eru enn starfandi saman við Landsbankann. Af þessu er að sjálfsögðu hægt að draga lærdóm. Það vona ég að verði gert vegna þess að ég trúi því enn þá og mestu vonbrigði mín í þessu máli eru hvað lítið er eftir af sparisjóðafjölskyldunni. Ég vona svo sannarlega að við eigum eftir að sjá aftur eflast á Íslandi viðskiptastofnanir af þessu tagi sem eru reistar í þágu svæðisbundinna hagsmuna á öðrum forsendum en þeim einum að hafa af þeim fé; sparisjóði, samfélagsbanka, almenningsbanka, smálánabanka eða eitthvað af því tagi eins og við sjáum þrátt fyrir allt dafna í mörgum löndum í kringum okkur í samkeppni við stóra risa á fjármálamarkaði.

Ég leiði hjá mér ýmis ummæli hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur áðan að öðru leyti en því að ég get ekki annað en haft gaman af því að hv. þingmaður skammaðist út í það í þessu tilviki hvað varðar sparisjóði þá hefði fyrrverandi ríkisstjórn gengið gegn ráðgjöf eða vilja Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég er vanari hinu að hv. þingmaður skammi mig fyrir að hafa verið handbendi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og látið hann stjórna mér, þannig að ég hafði gaman af þessu, að nú var það orðið hins vegar að sakarefni að við hefðum ekki setið og staðið eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vildi t.d. í þessu máli. Það er rétt, að sjálfsögðu höfðu íslensk stjórnvöld, bæði framkvæmdarvald og löggjafarvald, sjálfstæðar meiningar um málið. Hverjar voru þær meiningar? Það var ríkur þverpólitískur vilji til þess að reyna að styðja við bakið á sparisjóðum í erfiðleikum þeirra rétt eins og stóru bönkunum var bjargað. Sá vilji birtist fyrst í neyðarlögunum þar sem sérstaklega eru teknar inn heimildir til ríkisvaldsins til að aðstoða sparisjóði í vanda. Sá vilji birtist hér margendurtekið á Alþingi og spurt mikið út í það hvernig gengi að vinna úr málum sparisjóðanna. Viljinn var því bæði til staðar hér á löggjafarþinginu og hann var ríkur meðal heimamanna. Það á sinn þátt í því að Sparisjóður Keflavíkur gat þrátt fyrir allt starfað og komst fram úr lausafjárvandræðum sínum, að heimamenn studdu við hann með svo öflugum hætti. Sveitarfélög og fyrirtæki á Suðurnesjum lögðu innstæður inn í sparisjóðinn til að hjálpa honum í lausafjárerfiðleikunum og reyndar ríkið líka sem er nú kapítuli út af fyrir sig, sem stofnaði reikning í Sparisjóði Keflavíkur sem er sérstakt. Allt skiptir þetta máli þegar sagan er greind.

Varðandi útkomu ríkisins í þessum efnum eru sem betur fer til fleiri skýrslur. Þar er nýlega komin fram skýrsla sem var unnin fyrir fjármálaráðuneytið af doktorunum Ásgeiri Jónssyni og Hersi Sigurgeirssyni. Hún er afar fróðleg. Tekur á útkomu ríkisins bæði hvað varðar fjármögnun stóru bankanna og sparisjóðanna og niðurstaðan er þar eins og staðan var þegar skýrslunni var lokað, að ríkið er í plús í því dæmi upp á eina 115 milljarða kr. Það er vissulega rétt að ef sparisjóðirnir einir og sér eru skoðaðir þá er útkoman ekki jafn góð. Þar er um rúmlega 22 milljarða kostnaður sem stendur á ríkinu núna, hreinn kostnaður. Einhverjar eignir gætu átt eftir að skila sér inn í það, en af því að stóru bankarnir eru í plús upp á tæpa 140 milljarða er heildarútkoman þessi. Kostnaðurinn er fyrst og fremst vegna þess að innstæður í Sparisjóði Keflavíkur og seinna sem færðust yfir í SpKef voru tryggðar. En sem betur fer reynist það eina tilfellið þar sem ríkið lenti í kostnaði vegna langstærstu og áhættusömustu yfirlýsingar af þessu tagi sem var gefin af bæði fyrstu ríkisstjórninni og ítrekuð af okkur, að allar innstæður yrðu tryggðar. Það er ein af niðurstöðum skýrsluhöfunda að í raun geti ríkið auðvitað mjög vel við unað að komast frá því að lofa tryggingu á öllum innstæðum, hvaða nafni sem þær nefnast, í öllum íslenskum innlánsstofnunum. Þegar upp er staðið er það þó ekki nema ein sem reynist svo illa á sig komin að eignirnar duga ekki fyrir forgangskröfunum, innstæður orðnar að forgangskröfum. Það er þá helst að jafna því við gjaldþrot Sparisjóðabankans sem betur fer var ekki með innlán frá almenningi.

Ég er sammála Gylfa Magnússyni, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, að ekki verða færð sterk rök fyrir því að það hafi skipt miklu máli t.d. að SpKef starfaði í þennan stutta tíma sem hann gerði einfaldlega vegna þess að vandinn var tekinn í arf frá Sparisjóði Keflavíkur og veikleikarnir lágu í svona stórkostlega illa útleiknu og löskuðu eignasafni þess sparisjóðs og lánveitingum án trygginga, og sú staða breyttist ekki mikið á þeim tíma sem SpKef starfaði, í sjálfu sér kannski ekki heldur á tíma Sparisjóðsins í Keflavík vegna þess að innstæður eru auðvitað ekki bara færðar debetmegin í bönkum, þær eru líka (Forseti hringir.) kreditmegin. Peningarnir koma inn í bankann, ekki satt?